Færsluflokkur: Bloggar

Ný stjórn kosin í VÍK

Á aðalfundi VÍK, sem fram fór í gærkvöldi var kosin ný stjórn. Hrafnkell Sigtryggsson verður áfram formaður en með honum í stjórn munu næsta árið sitja Jóhann Halldórsson, Birgir Már Georgsson, Einar Sverrisson og Sverrir Jónsson (fjarstaddur).

Jæja, þá er prinsipið fallið sem maður hefur haldið á lofti síðustu ár en það er að láta ekki draga sig í stjórn nokkurs félags.  Ég var búinn að ákveða fyrir nokkru að hætta öllum afskiptum af stjórn þeirra félaga sem ég er meðlimur í eða hef áhuga á þar sem ástundun mín snerist fyrst og fremst um að hafa gaman af hlutunum.  Reynslan hefur kennt mér að málin eiga það til að verða full persónulega hjá aðilum sem ekki eru virkir sem félagsmenn, en hafa alltaf sterkar skoðanir á hlutnum án þess að vinnuframlag fylgi á bakvið.  En ég lét tilleiðast að ganga í stjórn VÍK eftir fortölur Kela formanns. 

Ég vil þó taka það skýrt fram að ég mun jafnframt verða áfram félagi í AÍH og geri miklar væntingar með það félag og það deiliskipulag sem verið er að kynna Hafnfirðingum þessa dagana.  En hagsmunir mínir sem hjólamanns eru tvímælalaust miklir þar sem öll fjölskyldan og fleiri ættingar stunda þessa íþrótt.  Því ákvað ég að vera aðili sem reynir að hafa áhrif í stað þess að sitja og tuldra út í horni.


Tiltekt nauðsynleg?

Jæja, þá er nú eiginlega komið að því að maður verður að fara að taka til í myndaalbúminu hjá sér.  Nú fer að styttast í nýtt tímabil og ætli maður verði ekki að búa til pláss fyrir nýrri myndir.  Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig ég á að skipta myndaalbúminu og er einn leið að setja hverja uppákomu fyrir sig í sér möppu, en einnig er það spurning um að skipta þessu niður á fjölskyldumeðlimi.  Það kemur í ljós. 

Svona til upplýsinga fyrir þá sem ekki vita, að þá byrjaði fjölskyldan í motocrossi um mitt síðasta ár.  Síðan hefur þetta orðið að helsta áhugamáli fjölskyldunnar.  Allar myndir á þessari síðu er frá því að við byrjuðum í þessu sporti og til dagsins í dag.  Í dag eru Margrét Mjöll, nr. 686, að keppa fyrir hönd Team Nitro Kawasaki á þessu ári í 85cc flokki kvenna.  Björk, húsmóðirinn á bænum og er nr. 656, mun einnig keppa í 125cc flokki fyrir sama lið og kalla þær sig "Big Mamas".  þannig að það er ljóst að það verður nóg að gera hjá fjölskyldunni næsta sumar.

Hvað sem því líður að á mun ég nota þessa síðu til að upplýsa þá sem hafa áhuga á framgang mála hjá þeim mæðgum í þessu sporti og þá sérstaklega fyrir þá sem búa erlendis.  Ættingar og vinir hafa kvartað yfir því að þessi síða innihaldi eingöngu upplýsinar um motocross, en ekki það sem við gerum dags daglega.  Til upplýsinga fyrir þá, að þá er þessi síða ekki hugsuð til að tala um hversdagslega hluti og heldur eingöngu um þetta áhugamál fjölskyldunnar, eða þar til annað áhugamál tekur við.  Þið verðið hreinlega að fyrirgefa ef ykkur finnst þetta full einhæft.  Eða eins og Frank Sinatra sagði:"That's life"....   


Björk í fjörunni hjá Þykkvabæ

Við fórum í dag í Þykkvabæ í ágætis veðri og var mikil munur á því frá síðustu helgi.  Sandurinn í fjörunni var mun harðari heldur en síðast og var á köflum allt að því frosinn.  En ekki verður hægt að kvarta yfir aðstæðum til hjóliðkunnar þar sem veðrið lék við okkur þó hitastigið væri ekki hátt.  Björk var sú eina úr fjölskyldunni sem hjólaði í dag þar sem ég er rifbeinsbrotinn á tveimur síðan um síðustu helgi og krakkarnir voru fjarri góðu gamni.  Öll athyglin var því á Björk og er óhætt að segja að hún hafi nýtt sér þér það.  Ekki á hverjum degi sem við förum bara tvo út af fyrir okkur án þátttöku barnanna.  Björk er öll að koma til og verður sífellt öruggari og öruggari á hjólinu. 

Á staðnum voru nokkrir af starfsmönnum Nitró og má þar fyrst nefna Hauk, Teddu, Össa og Gunna.  Einnig var þarna Óli og sonur hans Jóhann sem varð fyrir því óláni að slíta keðjuna á hjólinu sínu eftir aðeins 15 mínútna dvöl á svæðinu.  Einnig voru nokkrir KTM gaurar og fólk á Yamaha sem ég kann ekki nánari deili á.  Ég setti nokkrar myndir á netið frá því í dag, en ég varð fyrir því óláni að ýta óvart á takka á vélinni sem gerði það að verkum að "autofocus" datt út.  Þannig að það voru yfir 40 myndum sem var hent eftir daginn, en nokkrar tókust þó ágætlega.  Hér er slóðin á myndirnar frá því í dag ásamt síðustu helgi: http://sveppagreifinn.blog.is/album/THykkvibaer/


Myndbandið sem Margrét var í -- Freyju RÍS auglýsinginn

Var að setja á heimasíðuna auglýsingarmyndbandið sem Margrét var í og var tekið á Sólheimum í lok ágúst á síðasta ári.  Það sést nú ekki í andlit hennar, en hún er á Kawasaki hjóli með bleikan hjálm og í grænum galla.  Hjólið hennar er merkt nr.686 en hér er bein slóð á myndbandið: http://www.sveppagreifinn.blog.is/blog/sveppagreifinn/video/613/

Þykkvibær á drungalegum laugardegi

Jæja, þá kom að því að ég dytti á nýja hjólinu mínu.  Flaug ég 2x á hausinn á nákvæmlega sama stað í einni sandbrautinni með þeim afleiðingum í seinna skiptið að ég fór fram fyrir mig og fékk hjólið ofan á mig.  Þannig að nú er maður búinn að fá þá eldskírn, en þetta fylgir þessu sporti og eftir á hlær maður af þeirri vitleysu sem maður gerði.

Aðstaðan í Þykkvabæ hefur sjálfsagt munað fífil sinn fegurri þar sem mikil grappi lá yfir síðustu 200 metrana niður að strönd og var það ansi þungfært.  Í raun var ótrúlegt að engin bíll skyldi hafa fest sig þarna þar sem færið var erfitt og bleytan mikil.  Ég veit ekki hvernig öllum gekk að komast frá svæðinu aftur en færið hafði að sjálfsögðu þyngst eftir því sem fleiri fóru þarna um.  Staðurinn sjálfur er skemmtilegur og var mjög gaman að hjóla þar, eins og alltaf, nema fyrir utan veðrið sem var mjög hráslagaralegt og frekar kalt.  Gekk á með slydduélum þannig að maður sá ekki út á köflum.

Ekki voru mjög margir á svæðinu, svona 30 hjól þegar mest var og greinilegt að veðrið hafði sett strik í mætinguna þennann daginn.  Því miður hafði einn hjólamaður það af að viðbeinsbrotna og er það miður.  Ég varð ekki vitni af þeim atburði og get því ekki tjáð mig um atburðarrásina. 

Annars finnst mér það frábært að Þykkvibær skuli heimila okkur að stunda akstur á motocrosshjólum á þessu svæði og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.  Ekki á hverjum degi sem maður upplifir það að vera hjartanlega velkomin með hjólin og mætu aðrir taka þá sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar.  Enda ofsögum sagt af spjöllum og glannaskap þeirra sem stunda þessa íþótt.  Alla vega verður ekkert annað snakk verslað á mínu heimli hér eftir nema Þykkvabæjarsnarl.


Vagn eða sendibíll?

Það eru skiptar skoðanir um þá áætlun mína að fá mér lokaðan vagn sem hægt er að flytja og geyma hjól ásamt að bjóða upp á þann mögleika að sofa í.  Hugmyndin er að flytja inn amerískan vagn sem er allt að 6 metrar á lengd og vegur, með full nýttri burðargetu sem er nánast aldrei, rúm 3 tonn.  Sá vagn sem um ræðir hefur svefnpláss fyrir 6 og er í raun fullvaxta hjólhýsi með "ramp" sem opnar allan afturhluta vagnsins til að hægt verði að keyra beint inn í vagnin hjól.  Hægt er að geyma/flytja allt að 4-5 hjól í þessum vagni og í honum er innbyggð bensínstöð ásamt háþrýstidælu. 

Vissulega hefur sendibíll ákveðin hentugleika og meðfærileika sem vagnin hefur ekki, þ.e. þú verður alltaf að flytja vagnin á milli staða með því að nota tiltölulega öfluga bifreið.  Á sendibílnum er allt tilbúið og maður einfaldlega ræsir bílinn og ekur af stað.  En ég held að fólk verði að líta á hvaða hlutverki slíkur vagn á að hafa fyrir notandann.  Fyrir mig snýst þetta um að sameina fjölskyldu áhugamál sem er bæði ferðalög innanlands og motocross.  Vagnin getur virkað sem hjólhýsi eitt og sér og engin regla að þú verðir alltaf að taka hjólin með þér.  En það er líka ekki það eina sem hann býður upp á. 

Ef við hugsum okkur hefðbundinn júní dag í fyrra, að þá var farið strax eftir vinnu til að leyfa grísunum að hjóla.  Júní var skítkaldur í fyrra og von bráðar vorum við, aðstandendurnir, að drepast úr kulda og flúðir inn í bíl í kaffisopann (þetta var áður en við eignuðumst hjól sjálf).  Það var reynt að borða eitthvað á leiðinni upp eftir, eða þá að fólkið borðaði smurt brauð sem húsfrúin hafði upp á náð og miskun smurt ofan í liðið.  Slíkur vagn býður upp á að fólk einfaldlega eldi og borði á staðnum, fyrir utan að geta hlýjað sér og leyft öðrum að njóta þess að setjast niður og drekka gott kaffi.  En hugsunin er ekki eingöngu að nota slíkan vagn upp til að fara upp í Bolöldu eða aðrar brautir í nágrenninu.  Nei, það á að nota slíkan vagn til að ferðast um landið með hjólin og hreinlega njóta þessa að leggjast út í nokkra dag og jafnvel vikur.  Til slíkra hluta, finnst mér sendibíll (óinnréttaður) ekkert sérstaklega spennandi kostur.  Einnig þar sem við erum fjögur í heimili, að þá þyrfti ég annað hvort að láta innrétta sendibílinn með bekk aftur í til að geta flutt alla í einum bíl eða fara á tveimur bílum.  Það er hugmynd sem nýtur ekki náð í augum konu minnar og því er sendibíll ekki upp á pallborðið í þessum efnum og ljóst að við munum reyna við vagninn.


Viðhald hjóla og 10 þumalputtar

Nú er ég aðeins að taka hjólin í gegn á heimilinu.  Að vísu er tvo hjól af fjórum splunkuný og því ekki mikið viðhald þar, nema að skipta um keðjur og setja Race Tech dempara í þau.  Einnig er ég að láta lækka hjólið sérstaklega fyrir Björk þar sem hún er ekki nógu dugleg að taka Lýsi stelpan og er hætt að stækka.  Gaman verður að sjá hvernig hún á eftir að fíla hjólið þegar það verður endanlega klárt, þ.e. full lækkað og með Race Tech dempara.

Margrétar hjól er á fara í gegnum töluverða endurnýjun og er hún að fá upphækkun á stýrið fyrir "Fat-bar" stýri og þar með einnig stýrið sjálft.  Þetta þýðir að það verða ný handföng hjá henni og einnig fær hún AVS bremsu og kúplingshandföng.  Ný keðja verður sett á hjólið og búið er að kaupa ný plöst, sem að vísu verður límt á límmiðakittin fyrir Team Nitro Kawasaki.  Persónulega hefði ég verið hrifnari af þeim í upphaflegum litum, þ.e. með græna litnum áfram en stelpurnar ráða og því hefur fengið á sig þetta bleika yfirbragð.  Einnig er verið að setja undir hjólið ný dekk og athuga með stimpilinn.

Að þessu upptöldu sést að hjólið hennar Margrétar er í töluverðri yfirhalningu.  Þar sem ég er nú ekki þekktur fyrir að vera mikil vélvirki, að þá afráð ég að setja þetta í hendurnar á honum Gunna á verkstæði Nitró.  Slíku fyrirkomulagi fylgja að sjálfsögðu kostir og gallar.  Kostirnir eru að þetta verður gert rétt og allt eins og það á að vera.  Gallarnir eru að sjálfsögðu þeir að ég þarf alltaf að greiða fyrir slíka þjónustu sem tikkar upp í kostnaðinn við að eiga og reka slík hjól.  Já, það er vandlifað í þessum heimi og ég verð víst að eiga það við mig og almættið að hafa skapað mig með 10 þumalputta þegar kemur að viðgerðum á vélum.


Kerrur o.fl. fyrir flutning á hjólum á milli staða

Hef mikið verið að spá og spekúlera með það hvernig maður á flytja hjól á milli staða hér á landi.  Er orðin langþreyttur á því að vera með hrein og fín hjól þegar maður leggur af stað, en þegar að brautina er komið að þá er hjólið/-in orðin vægast sagt ógeðsleg og löngunin til að planta sér á þau takmörkuð sökum skíts og saltdrullu.  Ég er sjálfur með opna kerru og þar sem fjölgun hjóla á heimilinu hefur verið slík, að þá er hún of lítil í dag.  Mín hugmynd hefur verið að finna lokaða kerru, með lás og tilheyrandi, með burðargetu fyrir 4 hjól.  Þannig að ég fór á stúfana hér heima og verð nú að segja að það að þetta er eintóm eyðimerkurganga. 

Úrvalið hér á landi er skelfilegt fyrir okkur hjólamenn.  Það eina sem er í boði hér heima eru hestakerrur og ljóst er að dýr yrði Hafliði allur.  Þvílíkt verð á þessum kerrum og ljóst er að munurinn á þeim sem ríða út truntum og þeim sem hjóla er gífurlegur, alla vega hvað fjárhag snertir.  Ein skitinn kerra fyrir fjóra hesta kostar litlar 1,4 m.kr. ný og þótti þetta mjög gott verð.  Annar bauð mér 3ja ára gamla kerru fyrir 4 hesta á 1,7 m.kr. og var hún frekar sjúskuð blessunin.  Ég spurði viðkomandi sölumann hvort það væri ekki allt í lagi heima hjá honum.  En það er ljóst að hestamenn víla sér ekki við því að punga út slíkum upphæð fyrir hestana sína.  Annað hvort er álagið á þessum vörum slíkt að það er ekki nokkru lagi líkt eða við kunnum ekki að versla inn að utan.  Ég geri ráð fyrir því fyrrnefnda.

Nú er svo komið að ég geri ráð fyrir að flytja inn sjálfur kerru að utan.  Endanlegt verð liggur ekki fyrir en ég get þó upplýst að verðið verður UMTALSVERT lægra heldur en hjá núverandi söluaðilum.  En allt þetta ferli hefur vakið upp spurningar hjá mér um afhverju þessum þætti hjólamennskunnar hefur verið svona lítið sinnt hér á landi.  Mér skilst að flutt hafi verið inn um 7-800 drullumallarar í fyrra og einhverjir af þessum aðilum þurfa þokkalegt flutningstæki fyrir sinn búnað.


Reynsluakstur Kawasaki fjórhjóli með snjóbeltum

Skemmtilegt tilbreyting átti sér stað í dag þegar við fengum símtal frá Hauki og Teddu í Nitró og okkur boðið að hitta þau við Skálafell þar sem tilgangurinn væri að reynsluaka Kawasaki KVF Brute Force 750 4x4 með sérstökum snjóbeltum.  Ekki þurfti að bjóða okkur þetta tvisvar sinnum og við gerðum okkur klár í snatri, með tilheyrandi snjógöllum og að sjálfsögðu kaffinu.  Það var sterk gola sem mætti okkur er við beygðum inn í Mosfellsdalinn og leist okkur svona hæfilega á þetta þar sem ljóst var að það yrði mjög kalt og það varð raunin.  Þegar að Skálafelli var komið höfðu Tedda og Haukur þegar mætt á svæðið og Haukur svona nett fest bílinn hennar Teddu með hjólið aftan í.  Hann var svo sem ekki lengi að losa bílinn, en það var skítkalt.  Sterk golan gerði það að verkum að vindkælinginn var töluverð og maður þakkaði fyrir forsjálni frúarinnar fyrir að hafa tekið mikið af heitu kaffi.

Af reynsluakstrinum sjálfum er það að segja að fjórhjólið kom okkur nokkuð skemmtilega á óvart.  Hreyfingarnar voru að vísu mjög frábrugðnar t.d. snjósleða eða fjórhjóli á hefðbundnum dekkjum og munaði þar helst um beygjuradíusinn.  En fjórhjólið á beltunum svínvirkaði og fljótt gleymdist kuldinn.  Allur vildu vera á þessu blessaða hjóli og ljóst að stutt er í fjórhjólabakteríuna hjá fjölskyldunni.  Það var fátt sem virtist geta stoppað hjólið í snjónum og er ljóst að þetta er mjög svo skemmtilegur valkostur á móti snjósleðum hér á landi þar sem notagildið er jú mun meira þar sem menn taka einfaldlega beltinn af þegar snjórinn kveður og setja hefðbundinn dekk undir með tilheyrandi notagildi.

Frúinn skemmti sér konunglega á tækinu og krakkarnir vildu helst kaupa hjól strax í gær fyrir hádegi.  Þannig að nú er eina ráðið mitt að halda mig frá Nitró á næstum dögum ef ég á að komast hjá þessari freistingu, en það verður líklega mjög erfitt.  Persónulega hefði ég töluverðan áhuga á að mynda ákveðinn hóp fjölskyldna sem nýtti þetta tæki til ferðalaga bæði sumars og veturs.

Það er ljóst að Haukur og frú náðu að smita okkur alvarlega og mikið rætt um hvort að okkur dygði 2 hjól til framgreindra verka og leikja.  Þannig að ég get bara sagt, "Takk Haukur og Tedda fyrir að smita okkur að enn einni bakteríunni"...  W00t  Fyrir áhugasama skora ég á að skoða fyrirbærið hjá Nitró...  Ég hef einnig sett nokrar myndir af þessu á netið og er hægt að sjá þetta á þessari slóð: http://sveppagreifinn.blog.is/album/ReynsluaksturfjorhjolsvidSkalaf/


Hvaleyrarvatn

Við fórum upp á Haleyravatn í dag í þeirri veðurblíða sem var í dag.  Þetta var skemmtileg ferð og alveg frábært að geta farið á þetta vatn sem er í næsta nágrenni við mann með tiltölulega lítilli fyrirhöfn.  Nokkrir hjólamenn voru þarna fyrir og tóku sumir hressilega á því í brautinni sem búið var að setja upp á vatninu.  Mjög gaman var að fylgjast með þeim sem voru að keppa sín á milli í brautinni og er hraðinn á þeim oft lygilegur.  Færið var þó nokkuð þungt þar sem það er búið að snjóa nokkuð mikið hér á höfuðborgarsvæðinu, alla vega fyrir litlu hjólin eins og 65cc. 

Björk fór á hjólið hennar Margrétar þar sem nýja hjólið hennar er ekki nelgt og sat ég hjá þar sem mitt hjól er heldur ekki nelgt í dag.  Kerla er bara orðin býsna seig á hjólinu og tekur hún miklum framförum í hvert sinn sem hún fer á hjól.  Það var virkilega gaman að sjá hvernig hún er farinn að beita hjólinu og lagði hún það nokkrum sinnum hressilega í beygjurnar með tilheyrandi "slide-i".  Litla manninum, þ.e. Óliver, fannst færið full þungt og tók því svona hæfilega á því. 

Hægt er að sjá myndir af þessari ferð á eftirfarandi slóð: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Hvaleyravatn/ 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sverrir Jónsson
Sverrir Jónsson
Ég heiti Sverrir Jónsson.  Helsta áhugamál mín eru motocross, veiðar, útivist o.fl.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 376273

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband