Færsluflokkur: Bloggar

Vetrarakstur torfæruhjóla í snjó

Fann flottan búnað á netinu, eftir að hafa verið að sniglast og skoða myndir frá "bikeworld" sýningunni í US, sem gerir fólki kleift að nota hjólin á mjög svo skemmtilegan máta á snjó.  Þessi ferðamáti virkar að mörgu leyti skemmtilegri heldur en að aka snjósleða þar sem þú ert miklu frjálsari og getur lagt hjólið meira t.d. í beygjur o.s.frv.  Gripið er þó örugglega ekki það sama og á snjósleða.  En dæmi þó hver fyrir sig, en þetta vakti alla vega athygli minnar og gaman væri að prófa svona apparat hér á landi.  Er þó ekki frá því að Haukur í Nitró hafi flutt inn ekki ósvipað belti á eitt hjól sem prófað var af Bjarna Bærings o.fl., en þetta er samt að einhverju leyti frábrugðið.  Endilega kíkið á myndbandið:


Aðalfundur AÍH í gær

Jæja, fyrir þá sem ekki vita að þá var aðalfundur AÍH í gær.  En ljóst er að það er farið að lifna aftur í gömlum glæðum og komu á fundinn bæði rallýcrossfólk, götubifhjólamenn sem og torfæruhjólamenn.  Rallýcrossdeildinn var endurvakinn og verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr því.  Jafnframt var stofnuð ný deild, "Götubifhjóladeild", sem mun fara með málefni "road-racera" og almennra götubifhjóla.  Var mikill hugur í þeim mönnum sem komu þarna inn og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri deild.  Ég óska hinum nýju meðlimum alls hins besta og velfarnaðar innan AÍH.  Að síðustu var nafni vélhjóladeildar AÍH breytt í "torfærudeild" þar sem með tilkomu "götubifhjóladeildar" þótti þetta nafn endurspegla miklu frekar það starf og þá einstaklinga sem þar eru saman komnir.   Ég óska nýrri stjórn AÍH og stjórn hverrar deildar alls hins besta.

Mál málana var samt nýja svæðið sem AÍH á að fá úthlutað skv. nýjasta deiliskipulaginu og allir bíða spenntir eftir.  En tillaga að deiliskipulagi þar sem akstursíþróttafólki hefur verið úthlutað ákveðnu svæði liggur nú fyrir hjá bænum og verður kosið að hluta til um hana í kosningum sem margir kalla nú í dag "Álverskosningarnar".  Ef deiliskipulagið verður samþykkt, að þá liggur fyrir að hægt verði að kalla eftir framkvæmdarleyfi frá bænum svo framarlega þetta rúmist innan aðalskipulagi bæjarins.  Vá hvað þetta hljómar allt steikt, ef ég má orða það svo.  Jæja, engu að síður að þá eru úrslit kosninga tengd áformum AÍH um uppbygginar á þessu svæði og ljóst að ef deiliskipulagið verður fellt að þá munu verða enn frekari tafir á uppbyggingu svæðisins fyrir akstursíþróttafólk.

Fyrir þá sem hafa áhuga, að þá geta þeir skoðað núverandi tillögu að aksturssvæðinu skv. deiliskipulagi í viðhengi með þessari bloggfærslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vikan sem er að líða...

Jæja, það er nú helling sem búið er að vera að gera hjá fólkinu þessa vikuna þótt bloggsíðan hafi ekki verið mikið uppfærð í samræmi við það.  Við höfum líka verið að hjóla í öllum tegundum veðurs sem hægt er að hugsa sér.  Frá því að vera í sól og blíðu, í öskrandi rigningu og í það að vera snjóstomur og skemmtileg heit.  Já, það er óhætt að segja að fjölskyldan hafi virkilega notað vikuna sem er að líða til að hjóla.

Mánudagurinn: Björk, Margrét og Karen fóru í þrekpróf til Keflavíkur.  Þær komu svona "allt í lagi" út og ljóst er að þær geta bætt sig mikið.  Það var nokkuð áhugvert það sem sá sem tók prófin sagði, en hann tapaði smá "credibility" þegar hann "gúffaði" svo í sig tveimur Pepsi Max, samloku og súkkulaðistykki...Smile  Stúlkurnar höfðu þó fullan hug á að taka athugasemdir hans til greina og reyna að bæta sig.

Þriðjudagurinn: Farið var óvænt í Þorlákshöfn eftir vinnu þar sem veðrið var glimrandi og liggur við að maður hafi verið komin í sumarfíling þarna.  Haukur lýsti því hátíðlega yfir að nú væri sumarið komið.  Við skulum ekkert vera að ræða það hvort að hann hafi haft rétt fyrir sér eður ei og látum veðrið tala sínu máli.  Brautin var bara í þokkalegu ástandi en var orðin nokkuð grafinn.  Greinilegt að skortur á tækjabúnaði og sú takmörkun sem svona sjálboðaliðastarf hefur í för með sér hamlar því að brautin sé ekki betri.  En samt, alltaf gaman að koma í Þorlákshöfn á brautina og í raun ein af fáum sem hægt er að fara í að staðaldri miðað við árstíma.  Þeir mættu samt alveg stækka bílastæðið við tækifæri.

Föstudagurinn: Farið aftur óvænt eftir vinnu, eftir að Tedda, Björk, Haukur og ég vorum búinn að rugla nóg í hvort öðru til þess að rokið væri af stað.  Veðrið í bænum var glimrandi, en það gekk á með skúrum fyrir austan fjall.  Nýbúið var að laga brautina, en ótrúlegt en satt að þá var nánast hvítt yfir jörðu eftir snjókomu síðustu daga.  Þar fór sumarspáin hans Hauks fyrir lítið.  Fyrir vikið var brautin nokkuð þung og erfið.  En hvað get ég sagt, ég stóð bara hjá og tók myndir ásamt því að innbyrða kaffi.  Brunað var í bæinn til að ná Supercross á Sýn og var hún mjög svo skemmtileg þetta kvöldið.

Laugardagurinn: Farið var í Þykkvabæ og var mætt á Esso í Ártúnsbrekkunni rétt fyrir 10.  Árni, vinnufélagi minn, hafði komið kvöldið áður og náð í hjólið mitt svo allir í fjölskyldunni hefðu hjól.  En fyrir þá sem ekki vita að þá er hjólakerran mín sprungin og komast eingöngu 3 hjól af fjórum í einu á núverandi kerru.  Kerrumálin eru vinnslu og munu skýrast á næstunni.  En okkur leist svona hæfilega á blikuna.  Það hafði byrjað að snjóa að töluverðum krafti um nóttina sem leið og allt var hvítt.  Þegar á Hellisheiðina var komið var flughálka, en þegar komið var niður Kambana að þá var autt frá Hveragerði og austur úr.  Þetta veðurfar á Íslandi er svo skrýtið að það hálfa væri nóg.  En fín mæting var í Þykkvabæinn og var þetta hin mesta skemmtun.  Þetta er að verða nokkrar kjarnafjölskyldur sem mæta nánast alltaf, og svo eru aðrir sem stoppa við og við.  Veðrið var bara ágætt miðað við spár og naut fólkið útiverunnar á hjólunum til hins ýtrasta.  Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir okkur í tvígang í um það bil 15-20 metra hæð og var það tilkomumikill sjón.  Við vorum þarna fram eftir degi og þegar við loksins lögðum í hann heim um rúmlega þrjú, að þá var skollinn á stórhríð og hvessti hratt.

Eins og sést á þessu, að þá hefur fjölskyldufólkið verið bara nokkuð duglegt að nýta sér hjólin þessa viku, en við neyðumst til að taka frí á morgun (sunnudag) vegna körfuboltamóts sem Óliver er að taka þátt í. 

En ég vildi þó í lokin koma sérstöku þakklæti til Teddu og Hauks í Nitró fyrir élju þeirra og dugnað fyrir að fara um hverja einustu helgi með fólki og hjóla með öllum þeim sem áhuga hafa.  Allir velkomnir...  Haukur er duglegur að segja til og fara ófáar mínútur hjá honum við að segja fólki til, ef það hefur áhuga á að hlusta og tekur tilsögn.  Sérstaklega eru þau dugleg við að sinna yngstu iðkendunum og eiga þau mikið lof fyrir þolinmæði sína.  Margur myndi hugsa meira eingöngu um sinn rass og skipta sér ekki af öðrum.

Ég tók nokkrar myndir sem ég er búinn að setja inn.  Hægt er að sjá þær með því að fara beint á þennann link: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Vika11/  eða fara í myndalbúmið og skoða það nýjasta. 


Róleg helgi, 3-4 mars

Þessi helgi bara nokkuð róleg hvað hjólamennsku varðar.  Við fórum bara að hjóla á laugardaginn, ekkert á sunnudaginn...  En það hefur orðið á venju hjá okkur að fara báða helgardagana að hjóla.  Í stað þess að hjóla á sunnudaginn var tekin sú ákvörðun að klára að líma þessu margblessuðu límmiðakitt sem við fengum á hjólin fyrir kvennalið Team Nitro Kawasaki.  En höfðum líka löggilta afsökun þar sem amma Bjarkar, amma Gunna, átti afmæli og að sjálfsögðu sáum við okkur fært að fækka eitthvað af kökum hjá henni.  Ekki mátti ég vita til þess að eitthvað af þeim færi til spillis...Smile 

Þetta er ekkert smá seinlegt og mjög illa skorið af þeim sem framleiddu þetta kitt.  Alla vega blótaði ég þeim nokkru sinnum í sand og ösku og hefði ég einhverju ráði á ákveðnum tímapunkti, að þá hefðu ég gefið upp hnitinn hjá þessum framleiðanda fyrir US Army til sprengjuæfinga...  Spurning á hverju þessir herramenn (eða konur) voru þegar þetta var skorið.

Framundan er þrekpróf fyrir dömurnar á morgun og verður gaman að sjá hvernig þær koma úr því.  Vonandi verður Margrét orðin hressari en hún var í dag, en hún er búin að vera hálfslöpp blessunin.  En fyrir þá sem vilja sjá síðustu myndirnar frá helginni, að þá getið þið farið á eftirfarandi slóð: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Helgin3-4mars/ en það eru ekki mjög margar myndir í þetta sinn.  Letinn að drepa mann...


Helgin, 23-25 febrúar

Jæja, þá er þessi helgi liðin.  Við fórum í Þykkvabæ í gær, laugardag, og voru aðstæður sæmilegar nema að það var helst til of mikið sandrok og þá sérstaklega þegar leið á daginn.  En þá var ekki hægt að horfa orðið beint upp án þess að skýla andlitinu og maður hreinlega beið eftir því að bílinn væri orðin það vel sandblásinn að það hefði verið hægt að fara með hann beint í sprautun.  Við stöldruðum ekki mjög lengi við þar, vegna aðstæðna og fórum heim til að þrífa hjólin.  Þátttaka í þessari æfingu Nitró var ekki stórkostleg, eða um 15 hjól þegar mest var.

Sunnudagurinn!  Fórum í Þorlákshöfn í dag ásamt Sveinbirni, Tobbu, Leó og Ingibjörgu.  Það voru kjöraðstæður á staðnum og brautinn var bara nokkuð góð.  Það var meiri fjöldi þarna heldur en í Þykkvabæ og margir keyrðu mjög flott.  Valdi og Ásgeir voru þarna ásamt Heiðari og Sölva.  Einnig voru þarna fleiri ökumenn sem ég kann ekki nánari deili á, en margir af þessu gaurum keyrðu lista vel og sýndu mér að langt er í land hjá mér...:o)   Björk verður allta öruggari og öruggari og finnst þessi braut mjög skemmtileg. 

Ég tók nokkrar myndir frá þessari helgi og bein slóð er: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Helgin23-25februar/


Að byrja í motocrossi, hvað þarf að hafa í huga.

Það er eitt og annað sem fólk þarf að athuga ef það fær áhuga á þessari íþrótt.  Eitt er að langa að prófa og annað að láta það verða að veruleika.  Það fyrsta sem menn verða að hafa í huga er sú upphæð sem viðkomandi er tilbúinn að eyða í startið, þ.e. heildarkostnað við fatnað, hjól o.fl.  Sú upphæð getur að sjálfsögðu verið mjög breytileg og fer eftir því hvort viðkomandi ætlar að stunda þetta af kappi eða svona í og með.  Þegar upphæðin hefur verið ákveðin, að þá kemur forgangsröðin:

  1. Öryggisbúnaður - þetta er algjört lykilatriði fyrir alla iðkendur íþróttarinnar án tillit til hvort um byrjenda eða lengra komin sé að ræða.  Iðkandinn á ekki að spara við sig í öryggisbúnaði og ætti að kaupa sér alla þá mögulegu vörn sem völ er á.  Öryggisbúnaður er hjálmur, skór, brynjur með brjóst-, axla- og hryggvörn, olnboga- og hnéhlífar, nýrnabelti svo eitthvað sé nefnt.  Hægt er að kaupa sér heila brynju sem er í senn brjóst-, axla- og hryggvörn ásamt að vera með olnbogahlífar og nýrnabelti. 
  2. Hjól - þetta er næsta mál á dagskrá og er þá spurning hvort að viðkomandi vill kaupa sér nýtt og ónotað hjól eða notað.  Ef viðkomandi hefur takmörkuð fjárráð að þá mæli ég frekar með því að hann eyði meira í góðan öryggisbúnað og kaupi sér notað hjól fyrir afganginn frekar en að kaupa sér nýtt hjól og lélegan eða sama sem engan öryggisbúnað.  Það er alltaf hægt að skipta um hjól en þú skiptir ekki um ónýta öxl og brotinn hrygg.  Kaupið ekki of kraftmikið hjól í byrjun, þ.e. veljið ekki of stórt hjól miðað við getu þar sem það getur leitt til slyssa vegna þess að viðkomandi ökumaður ræður ekki við farartækið og þá er betur heima setið. 
  3. Fatnað - litur á galla er í raun aukatriði en að sjálfsögðu fer þetta eftir smekk manna.  Gallinn sem slíkur gerir mann ekki að góðum ökumanni og gallinn hefur í sjálfu sér ekki mikið varnagildi.  Því er þetta liður 3 í þessari upptalningu þar sem þetta á ekki að vera aðalfókus hjá þeim sem er að byrja í sportinu.
  4. Klúbbur - til að geta stundað þessa íþrótta með löglegum hætti að þá skiptir miklu máli að ganga í löglegan klúbb þar sem viðkomandi kemst í brautir og getur hugsanlega fengið leiðsögn.  Það er þó hægt að komast í brautir án þess að ganga í klúbba, en með reglulegri ástundun að þá er það hagstæðara að vera löggildur félagi þar sem að þá styrkir þú félagsstarf sem gætir þinna hagsmuna.
  5. Límmiðakit - það getur verið gott upp á vörn á plastinu á hjólinu og auðveldar að mörgu leyti þrif, fyrir utan að setja skemmtilegan karekter á hjólið.  Þetta atriði er í raun það síðasta sem hafa þarf að hafa í huga við ástundun og skiptir minnstu máli.

Það eru svo sem fleiri atriði sem hafa þarf í huga, eins og að hvernig ætlar viðkomandi að koma hjólinu á milli brauta en það gerist ekki án bifreiðar og hugsanlegrar kerru.  Varðandi búnað að þá er hægt að gera ágætis kaup í notuðum búnaði, hvort sem um er að ræða öryggisbúnað, hjól og fatnað.  Einnig getur það verið gott ráð til að athuga hvort að þetta sport eigi við mann að fá lánaðan búnað og hjól og prófa ef þið eruð í aðstöðu til þess.  Þetta er ekki fyrir alla, en mín reynsla er sú að flestir verða "húkt" á þetta.  Svo fyrir alla muni SPYRJIÐ.  Það er fólk, bæði iðkendur og fólk í verslunum, sem er meira en tilbúið að svara helstu spurningum er þessu tengast og því meiri upplýsinga sem er aflað, því meiri líkur á að þú/þið takið skynsamlega ákvörðun í þessu málum.  Einnig þarf að huga vel að viðhaldi hjólsins og því betur sem því er sinnt, því minni líkur á slysum eða dýrari viðhaldsaðgerðum seinna meir vegna vanrækslu.

Hver er svo rétti aldurinn til að byrja?  Í raun sem allra fyrst.  Krökkum er þetta eðlislægara heldur en okkur sem eldri erum og auðveldara að leiðbeina þeim.  En við, sem komin erum af allra léttasta skeiði, lesum betur línur í brautir og höfum meiri reynslu af að meta hraða annarra iðkenda og erum því að mörgu leyti fljótari að átta okkur á hættum heldur en þau sem yngri eru.  En umfram allt stundið þetta eingöngu á löglegum svæðum og hafið gaman af þessu.  Þetta er tímafrekt sport, ef stundað er af kappi, en mjög skemmtilegt og gefandi.


Áfram stelpur, þið rokkið!

Mjög skemmtileg umfjöllun var í kastljósinu á RÚV í gær og var hún afar jákvæð fyrir sportið.  Mig langar að hrósa stelpunum fyrir frábæra frammistöðu, ekki nóg með að þær hjóluðu vel heldur komu þær mjög vel fyrir og voru sportinu til sóma.  Stelpur, þið rokkið!

Ef einhver missti af þessari jákvæðu umfjöllun í Kastljósinu, að þá getur sá hinn sami séð hana á eftirfarandi slóð: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301733/1

Ég segi bara enn og aftur, "áfram stelpur, þið rokkið!"


Upptaka fyrir Kastljósþátt sjónvarpsins

Í dag fór fram sjónvarpsupptaka af hálfu RÚV fyrir Kastljósið í Þorlákshöfn.  Í þetta sinn átti að fjalla eingöngu um kvenkyns ökumenn og því safnaði Tedda í Nitró eins mörgum saman og hún gat á þeim stutta tíma sem hún hafði til þess.  Það var mæting í Þorlákshöfn um 14:30 og urðum við fyrst á svæðið.  Fljótlega fóru hinar stelpurnar að týnast á svæðið og áður en varði var ekki þverfótað fyrir fjallmyndalegum kvenkyns ökumönnum.  Tilgangur þessarar þáttar er mér ennþá hulin ráðgáta, en mjög líklega er umfjöllunin um þann gífurlega vöxt kvenna í þessari íþróttagrein sem margir tengja eingöngu karlkynið við.  Maður verður bara að bíða spenntur eftir Kastljósi, en það átti að gera tilraun til þess að klippa þetta niður og sýna á morgun.  Ef það næðist ekki, að þá yrði það sýnt á næstu 3 dögum.  Þannig að maður verður límdur við sjónvarpið til þess að sjá hvernig útkoman varð af þessari upptöku og hvernig umfjöllunin verður.

Jæja, hvað sem því líður að þá tók ég fullt af myndum í þessari ferð og hef ákveðið að setja brot af þeim á netið.  En þar sem plássið er að verða lítið á síðunni, að þá verður þetta ekki nema lítið sýnishorn af öllum þeim myndum sem ég tók sem voru vel á annað hundrað.  Ef einhverjir hafa sérstakan áhuga að fá allar myndir af sér sendar til sín t.d. í tölvupósti að þá getur hinn sami haft samband við mig í sverrir.ok@simnet.is en bein slóð á myndirnar er http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/KastljosthatturRUV/ 


Sunnudagurinn í brautinni í Þorlákshöfn

Ekki er hægt að segja að veðurguðirnar hafi leikið við okkur í dag eins og í gær.  Það var þungt yfir og ringdi nánast allan tímann sem við vorum á svæðinu.  Það var búið að nýskafa brautina, þannig að hún var bara í þokkalegu standi fyrir utan pollana sem höfðu stækkað ef eitthvað var frá því deginum áður vegna úrkomu.  Við vorum ein á svæðinu í einhvern tíma þar til Hans Pétur og sonur hans Pétur birtust á svæðinu og hjóluðu með okkur.  Gunni og Össi í Nitró mættu á svæðið rétt fyrir brottför okkar og einhverjir fleiri voru á leiðinni á svæðið.

Þetta gekk bara ágætlega í dag og dagamunur á frammistöðu Bjarkar í brautinni.  Var hún farinn að ná því að fara í  erfiðustu beygjurnar án þess að detta, enda var hún orðin ákveðnari á gjöfinni og ef þetta var eitthvað vandamál að þá bjó hún bara til nýja braut fyrir sig...Smile  Það kom mér á óvart hvað Margrét virtist eiga létt með að hjóla í brautinni í ljósi þess að hún hefur ekki verið mjög dugleg að hjóla upp á síðkastið og allt að því sýnt þessu lítin áhuga.  Sveinbjörn stóð sig mjög vel og er ljóst að hann er nokkuð seigur á hjólinu, en hann var í raun að fara í fyrsta sinn í braut í dag.  Óliver var letinn uppmáluð og var ekki á því að fara út í þessa blessaða rigningu.

Ég er að bæta við nokkrum myndum í albúmið í dag og ættu þær allar að verða komnar inn í lok dags.


Æfing í Þorlákshöfn í dag

Björk og Óliver brugðu sér á æfingu í dag í blíðskaparveðri til Þorlákshafnar.  Þetta er í fyrsta sinn sem við komum að þeirri braut og virkaði hún ágætlega en er víst nokkuð erfið, að sögn þeirra sem hafa prófað.  Ég get ekki dæmt þar sem ég er í pásu vegna rifbeinsbrots fyrir rúmum 2 vikum síðan.  Björk var að fara í fyrsta sinn í alvöru braut og gekk það svona þokkalega.  En það verður ekki tekið af henni að hún hélt áfram þrátt fyrir brambrölt og erfiðleika við að ræsa hjólið aftur eftir fall.  Óliver fór í púkabrautina sem er þarna og gekk bara nokkuð vel, en fataðist aðeins flugið þegar fleiri fóru í brautina.  En vegna sandsins og stærð hennar að þá getur verið erfitt að fara fram úr öðrum einstaklingum, hvort sem þeir eru á ferð eða stopp í brautinni.  Þetta er atriði sem þeir í klúbbnum á Þorlákshöfn mættu aðeins laga, en þetta svæði er nýtilkomið og margt sem á eftir að bæta þarna.  En þeir eru þó með púkabraut og er það meira heldur en hægt er að segja um sum hjólasvæði.

Það voru nokkrir í Team Nitro Kawasaki að æfa og má þar nefna Arnar, Aron, Karen, Aníta sem eru öll í 125cc flokki en Aníta er komin á KX250F hjól í stað KX125 hjólsins og líkar að sögn mjög vel.  Einnig var þarna Tedda, Össi, og feðgarnir Óli og Jóhannes o.fl. sem ég man ekki nöfnin í akkúrat núna.  Að sjálfsögðu voru þarna fleiri frá öðrum liðum sem sett sinn brag á daginn.  Veðrið var hreint út sagt frábært og hefðu aðstæður ekki getað verið betri nema ef stóri pollurinn í braut hefði verið þornaður upp.

Við ætlum að gera aðra tilraun að fara þangað á morgun og þá mun eitthvað fjölga í liðinu þar sem Sveinbjörn, Margrét o.fl ætla að mæta á svæðið.  Spáin fyrir morgundaginn er ekki eins góð en vonandi verður ekki rok og rigning.   Ég setti nokkrar myndir frá því í dag á netið, en ég mun bæta í þetta á morgun ef veður og aðstæður leyfa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sverrir Jónsson
Sverrir Jónsson
Ég heiti Sverrir Jónsson.  Helsta áhugamál mín eru motocross, veiðar, útivist o.fl.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband