Færsluflokkur: Bloggar

On the road again...

Jæja, það er búið að vera smá frí hjá manni.  En við feðgarnir neyddumst til að fara erlendis til að hlúa að föður mínum sem er víst ansi framlágur þessa dagana.  Frúin og dóttir eru úti á Spáni að hjóla með Teddu, Hauk, Össa og einhverjum fleirum á Alicante svæðinu.  Þær fóru í gær.  Mér skilst að Björk hafi nú þegar slegið í gegn með einhverju óvæntu "flugatriði".  Hún slapp lifandi úr því og mér skilst að eftirá hafi verið mikið hlegið.  Margrét er búinn að fá sína eldskírn og detta einu sinni hressilega, en lifði það víst líka af.  Töluverður stigsmunur á brautum hér heima og úti og eru brautirnar úti miklu grafnari heldur en hér heima fyrir utan að vera harðari.  En það verður gaman að fá myndir af þessu ævintýri þegar þær koma og mjög líklega munu einhverjar rata á vefinn við tækifæri.

Við feðgarnir erum sem sagt einir í búinu og ætlum að reyna að fara að hjóla í fyrramálið.  Stefnan er sett á Sólbrekku en það gæti breyst yfir í Þykkvabæ.  Fer eftir veðri og vindum.  Það verður ansi kalt á morgun, eða um frostmark, og gæti brautin í Sólbrekku verið ansi hörð fyrir vikið.  En það á allt eftir að koma í ljós.  Ég óska hjólafólki gleðilegs sumars frá og með morgundeginum og vona að þetta verður snjólétt sumar... Tounge


Jíbbí! Sólbrekkubrautin að komast í gagnið

Jæja, við létum undan þrýstingi Margrétar og fórum í Sólbrekkubrautina í dag.  Ég var svona hæfilega bjartsýnn á að hún væri í lagi þar sem hitastigið var ekki nema 2°C og ég vissi af tveimur drullupollum sem við þessar aðstæður gætu verið frosnir.  En þegar við komum að brautinni leit hún rosalega vel út.  Að vísu var bara hluti af henni í notkun þar sem verið var að vinna í henni, en vá hvað hinn hlutinn leit vel út.  Ég dauðsá eftir að hafa ekki tekið hjólið mitt með, en verð að viðurkenna að ég er ennþá hálflemstraður eftir ferðina í gær í brautina við Þorlákshöfn og ekki líklegur til stórra afreka.  En í staðin kom Ingibjörg með og þar með var öllum plássum á kerrunni lofað.  Brjálaða Bína, eða sú sem gengur undir nafninu "halti haninn" þessa dagana sökum "hnjasks" á vinstra fæti, hvíldi sig skv. læknisráði.

Spenningur krakkana var mikil við komuna og ekki leið á löngu þar til Óliver var komin út í braut.  Var þetta í annað sinn sem hann fór í stóru brautina og það var ekki aftur snúið fyrir hann.  Hann skemmti sér konunglega og stoppaði hreinlega ekki.  Margrét réð ekki við sér yfir kæti að Sólbrekka skyldi vera komin í gagnið þar sem þetta er uppáhalds brautin hennar, af öðrum ólöstuðum.  Ekki leið á löngu þar til allir voru komnir af stað og hver hringurinn af fætur öðrum var hjólaður.  Feðgarnir Haraldur og Haraldur birtust líka þarna, vona að ég muni nöfnin þeirra rétt..Wink

Hvað sem líður að þá var þessi dagur hin mesta skemmtun og fékk maður smá sumarfíling, þrátt fyrir að vera töluvert dúðaður, á að komast í Sólbrekkubrautina.  Krakkarnir eru strax farin að suða um að fá að fara í brautina aftur á morgun.  VÍR þarf þó væntanlega að fá einhvern smá frið til að klára viðgerðina á henni, en þeir voru að vinna í henni á fullu þetta kvöld.  Herr Jói Kef var líka á svæðinu og tók púlsinn á hlutunum.  Hvað sem líður að þá verður þessi braut ofan á næstu daga hjá minni fjölskyldu, enda styðst að fara fyrir okkur.  Ég er að vinna í að setja myndir frá í dag á netið, en hér er bein slóð á þetta síðasta albúm: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Solbrekka10april/


Þorlákshöfn 9. apríl

Fjöskyldan brá sér í brautina í Þorlákshöfn í dag ásamt Sveinbirni og Ingibjörgu.  Veðrið var hið ágætasta í byrjun og brautin var mjög fín.  Eitthvað höfum við hjónin verið hálfskökk síðan úr Sóheimasandsferðinni þar sem við erum öll lurkum laminn eftir þessa ferð.  Björk er að vísu illa tognuð í nára síðan frá Sólheimasandi og hefði, ef hún hefði verið skynsöm, átt að hvíla sig í dag.  En eins og Haukur í Nitró sagði, "það er munur á því að vera klikkaður eða brjálaða Bína"... En í hans huga er brjálað Bína eftsta stig á klikkun sem Björk virðist svo sannarlega uppfylla...W00t  Björk afrekaði svo að detta á veiku löppina og var við það ennþá verri en hún var og getur nú nánast ekki gengið blessunin.  Nú þarf hún að hvíla sig hressilega ef hún ætlar að meika að fara til Spánar eftir 8 daga.  Ég komst að því að þótt ég sé búinn að vera að hjóla töluvert að þá skortir mig töluvert upp á æfingarúthald.

Margrét og Óliver stóðu sig ágætlega og Ingibjörg var spræk.  Gummi vinnufélagi og fjölskylda komu líka við og tóku nokkrar ryspur.  Þegar leið á daginn og við vorum að pakka saman, að þá byrjaði að rigna.  Við þökkuðum guði fyrir að hafa tekið saman í tíma en það tók litla 2 tíma að þrífa allt draslið eftir sandinn.  Þetta er að verða ansi rútínerað hjá okkur, en það tekur um það bil klukkutíma að gera allt klárt.  Síðan er náttúrulega ferðin til og frá staðnum, hjólað í 2-3 tíma með pásum, og svo komið komið heim og dótið hreinsað sem er aldrei orðið undir 2 tímum þegar maður er alltaf að þrífa 4 hjól.  Þannig að það fer bróðurparturinn af deginum í þetta dæmi hjá manni.  En ennþá finnst okkur þetta það skemmtilegt að við teljum þetta ekki eftir okku að stunda þetta af sama áhuga og við höfum gert upp á síðkastið.  Ég hlakka samt til þegar fleiri brautir verða tilbúnar til notkunar og hægt verður að vera fram eftir á kvöldin við að hjóla.  Svo fer líka að styttast í Klaustur.


Ferð á Sólheimasand 4-6 apríl

Óli hringdi í okkur fyrir nokkrum dögum og bauð okkur að koma með austur á sandana.  Í ljósi þess hvernig var síðast, að þá þurftum við ekki að hugsa okkur um tvisvar.  Við brunuðum austur um kvöldmatarleytið á miðvikudaginn og vorum komin austur að Eystri-Sólheimum rétt fyrir 10 um kvöldið.  Fólk kom sér fyrir og svo spáði maður í hvenær best væri að leggja af stað morgunin eftir.  Haukur og Tedda í Nítró ætluðu að koma á fimmtudagsmorgninum og þar sem hann vaknaði alltaf svo snemma, að þá yrði okkur ekki stætt á öðru en að koma okkur út í fyrra fallinu.

En það var Berglind "morgunhaninn" sem ræsti alla á fimmtudagsmorgni þar sem hún vildi fá sem mest út úr deginum þar sem hennar fjölskylda þurfti að bruna aftur í bæinn til að vera viðstödd fermingarveislu.  Við vorum komin niður á sandana fyrir 10 þennann morgun og það var strax komin nettur fiðringur í mann fyrir að hjóla á þessu svæði.  Veður var hið ágætasta en samt þó í kaldara lagi, eða hiti um 4°C.  Fólk dreif sig í að gera sig klárt og þá kom í ljós kostir þess að Léo og fjölskylda höfðu komið á stórum sendibíl með lyftu og var það mjög þægilegt að geta stungið sér þar inn og klætt sig.

Svæðið brást ekki vonum manns frekar en fyrri daginn og þetta varð hin ágætasta skemmtun.  Það er eitthvað fyrir alla á þessu svæði og geta þeir sem vilja leggja braut gert slíkt, þeir sem vilja "free ride" gert það og svo eru einnig góð gil sem hægt er að leika sér í.  Þetta er t.d. frábært svæði fyrir byrjendur.  Haukur og Tedda birtust svo um 11 leytið og tóku strax til við að hjóla.  Svona gekk þetta allan daginn.  Fólk hjólaði út og suður og tók sér síðan smá pásur til að drekka kaffi eða fá sér eitthvað í gogginn.  Í lok dags var farið til baka á bæinn þar sem við gistum og þar var slegið upp í heljarinnar grillveislu.

Við vorum ekki alveg jafnhress upp í morgun eins og í gærdag, en ýmist má því kenna um strengjum, ofáti eða kannski smá löngun til að slaka pínu á.  Við vorum komin niður á sandana um 11 leytið.  Veðrið var ekki síðra en í gær og eins og við mátti búast, að þá varð þetta mjög skemmtilegur dagur.  En það átti eftir að koma í ljós að flestir höfðu misreiknað sig lítillega þegar kom að bensíni og vorum við eiginlega á allra síðustu dropunum þegar hætt var í lok dags.  Haukur átti afmæli í dag og við sungum fyrir hann afmælissönginn.   Þegar búið var að pakka öllu saman, að þá kom í ljós að bílinn hans Óla var orðin rafmagnslaus og sendibílinn hans Leó líka.  Þeir vinirnir lentu í einhverjum ævintýrum við að koma þessu í gang og náði þeir ekki að leggja af stað í bæinn fyrr en upp úr kl.22.  En þá vorum við komin í bæinn og búin að þrífa allt dótið.

Ég vil að lokum þakka þessum skemmtilega og hressa hóp fyrir samveruna á söndunum og ekki síst honum Óla fyrir að standa fyrir þessu.  Þessi hópur nær vel saman og er lítið vesen á fólki.  Allir komnir til að njóta þess að vera til og allir boðnir og búnir til að hjálpa til ef eitthvað kemur upp á.  Enn og aftur takk!   Ég er byrjaður að tína einhverjar myndir á netið frá þessari ferð, en þar sem þetta er þvílíkur aragrúi mynda, 250 talsins, að þá tekur þetta smá tíma.  Hér er bein slóð á myndirnar: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Solheimasandur4-6april/    


Brautin var geðveik í Þorlákshöfn síðasta sunnudag...

Hananú!  Maður fær orðið skammir fyrir að koma ekki með fréttir af ferðalagi helgarinnar...:o)  En við fórum í Þorlákshöfn bæði laugardag og sunnudag um síðustu helgi.  En töluverðar lagfæringar hafa staðið yfir á brautinni og ánægjulegt til þess að vita að góð samvinna sé á milli VÍK og vélhjóladeild umf. Þórs.  En fyrir þá sem það ekki vita að þá Hjörtur "Líklegur" að vinna í brautinni í þrjá daga ásamt félgasmönnum vélhjóladeild umf. Þórs, enda Bolalda á kafi og eina sportið sem hefði verið hægt að stunda var JetSki.  Það skilaði sér heldur betur þar sem brautin var hryllilega skemmtileg á sunnudaginn og áttum við hjónin einn skemmtilegast hjóladag ársins í Þorlákshöfn.  Ég og Sveinbjörn fórum hvern hringinn á fætur öðrum og skemmtum okkur konunglega.  Björk er sífellt að verða ákveðnari á gjöfinni og hefur það virkað sem vítamínsprauta á hana þar sem öryggið virðist hreinlega hafa aukist við meiri inngjöf.

Margrét var ekki alveg eins heppin þar sem hún datt og við höggið koma eitthvað fyrir í gírkassanum þannig að hún festist í fyrsta gír.  Þannig að ekki varð eins mikið úr hennar degi eins og okkar.  Og svona til að fullkoma þennann dag hvað hjólaskemmdir snertir að þá prjónaði Óliver yfir sig og braut afturbrettið.  Ferlega fyndið að heyra hann lýsa þessu.  Að sumu leyti montinn að hafa prjónað en sært stolt fyrir að hafa farið yfir sig og hvað þá að hafa brotið brettið.  Þannig að þetta var svona haltu mér, slepptu mér samband.

Það var gaman að sjá að Bryndís er byrjuð að hjóla aftur eftir handleggsbrot frá Spáni og Einar, pabbi hennar, var komin á nýtt KTM250SXF.  Þannig að nú er karlinn komin með bæði enduro og motocrosshjól.   

Eitthvað af myndum var tekið á laugardaginn, en engar á sunnudaginn þar sem ég var mjög svo upptekinn við að hjóla.  Ég hef ekki sett neinar myndir inn ennþá, en reikna með að gera það næstu daga.  Nú er bara stefnan sett á að reyna hjóla um páskana.  En að lokum vil ég þó koma þakklæti til fólksins í vélhjóladeild umf. Þórs fyrir að reyna að halda brautinni lifandi.  Þetta er ekkert auðvelt í sjálfboðaliðastarfi og mikið gert af hugsjón.


Brautin í Þorlákshöfn í andlitslyftingu

Það er mikið verið að reyna laga brautina í Þorlákshöfn fyrir komandi helgi og páskana, en Hjörtur frá VÍK hefur verið að hjálpa til þar og verður þar fram að helgi.  Við, fjölskyldan, fórum í hana í gær og var búið að laga mest þar sem klappirnar stóðu upp úr og "vúpsana".  Því miður verður það oft við slíkar lagfæringar að þær línur sem höfðu myndast í brautinni hverfa og fyrir vikið er maður út um allt í brautinni þar sem sandurinn er mjög laus í sér.  Slíkir fylgikvillar fylgja alltaf lagfæringum í sandbraut og brautin verður þung fyrst um sinn.  En þetta er nauðsynleg framkvæmd og aksturslínurnar eru fljótar að myndast eftir því sem brautin er oftar keyrð.

Þrátt fyrir þungt færi í gær að þá skemmtum við okkur ágætlega, eins og oftast í þessari braut.  Þrátt fyrir rigningarspá um helgina, að þá gerum við fastlega ráð fyrir að fara í þessa braut um helgina. 


"Skreppitúr" í Þorlákshöfn, 27 mars

Það var ákveðið, með stuttum fyrirvara, að fara í Þorlákshöfn þar sem það var flott gluggaveður.  Þegar heim var komið og dótið komið á sinn stað út í bíl, að þá kom í ljós að eitt og annað vantaði eins og t.d. olíu fyrir 4T.  Ég gerði heiðarlega tilraun til að versla þetta á næstu bensínstöð Olís, en eins og svo margir hjólamenn á undan mér hafa upplifað að þá er nánast ekkert til á þessum bensínstöðum lengur nema sælgæti og gos.  Þannig að ég brenndi á Esso í Ártúnsbrekkunni og þar var þetta til.  En allar þessar æfingar töfðu för okkar út úr bænum um rúmar 25 mín. 

Upp við Litlu kaffistofu var komin snjókoma og hélst hún þar til við komum niður úr Þrengslunum og það glitti í Þorlákshöfn.  Jæja, við létum okkur samt hafa það og brunuðum í brautina.  Fámennt var þar, eins og gefur að skilja miðað við aðstæður, en samt var létt lundin á þeim sem fyrir voru. 

Ég hef komist að því að það er líklegast enginn stofn hjólamanna jafn klikkaður og íslenski stofninn, þar sem þeir fara nánast út í hvaða veðri sem er og hjóla við aðstæður sem fáir myndu sætta sig við.  Brautin var skemmtileg, en þung.  Þetta var ,þrátt fyrir hálf nöturlegar aðstæður, skemmtileg ferð.  Keli og Helgi sonur hans komu þegar við vorum hálfnuð með okkar tíma og tóku þeir létta syrpu í brautinni.  Helgi fékk að prufa hjólið hans Kela og þótti mikið til koma, og þá sérstaklega um Race Tech-ið sem er í hjólinu hans Kela.  Honum fannst hreint út sagt æðislegt að þurfa ekki fara neðar en í þriðja gír í beygjur og svo bara láta sig vaða. 

Á heimleiðinni trúðum við vart okkar augum.  En á meðan við vorum að hjóla var nánast komin jafnfallinn 10 cm. lag af snjó í Þrengslunum og fór vaxandi.  Skyggnið ekki upp á marga fiska þarna uppi og lagaðist ekki fyrr en komið var að afleggjaranum að Silungarpolli.

Jæja, hef þetta ekki lengra, en nokkrar myndir má sjá beint á þessari slóð: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Skreppur27mars/ 


Þjófnaður í heimahúsum, myndavélakerfi til varnar?

Því miður hefur eitthvað borið á því að afar óvandaðir einstaklingar hafa verið að fara inn í húsnæði þar sem menn hafa verið að geyma hjólabúnað sinn og stela öllu lauslegu.  Þetta er þróun sem erfitt virðist vera að stoppa og þessi andskotar virðast vera samviskulausir sem er skítsama um þó þeir valdi öðrum fjárhags og/eða tilfinningatjóni.  Góðkunningi minn, Óli, lendi í þessum raunum um daginn og þar kom berlega í ljós vanmáttur lögreglu og yfirvaldsins til að gera eitthvað í þessum málum þrátt fyrir að viðkomandi þjófur/-ar skyldu greinileg ummerki eftir sig sem gáfu afar sterklega til kynna hver þeir væru.  Hvar er nú öll þessi CSI tækni sem verið er að sýna í sjónvarpinu?

En hvað er til ráða fyrir venjulegt fólk eins og þig og mig?  Hvað getum við gert, við sem borgum heiðarlega fyrir þá hluti sem við eigum og notum, gegn þessum aðilum sem eru svo illa gefnir að þeir víla sér ekki við að nota illa fengna hluti hvar og hvenær sem er?  Ein leið sem hægt er að fara í og er í raun ekki mjög dýr framkvæmd í ljósi verðmæta sem menn liggja oft með, er uppsetning myndavéla.  Þá er ég ekki að tala um rándýrar eftirlitsmyndavélar sem öryggisfyrirtæki bjóða upp á, þó þær séu vissulega ágætar ef menn eru tilbúnir í slíka fjárfestingu.  Heldur er ég að tala um einfaldar og tiltölulega ódýrar vefmyndavélar frá framleiðendum eins og t.d. Cisco Linksys.

Sú vél sem t.d. kemur til greina er WVC200, sem er Wireless PTZ Internet Camera with Audio Flexible remote controlled Wireless Video solution.  Kosturinn við þessa vél er að hún er með hreyfiskynjara sem fer sjálfkrafa í gang um leið og hún verður var við hreyfingu.  Þegar hún nemur þessa hreyfingu að þá getur hún sjálfvirkt sent SMS skeyti, eða sent stuttar videoskrár á 4 mismunandi netföng í einu.  Þar fyrir utan, að þá getur notandinn "loggað" sig inn á vélina frá sínum vinnustað eða hverri tölvu sem er og skoðað ástandið eða hvað sé um að vera.  Þar fyrir utan, getur myndavélin farið á sjálfvirka upptöku og vistað allt sem fyrir framan hana verður, þannig að hægt er að skoða upptökuna seinna meir og hugsanleglega leggja fram hjá lögreglu vegna málsóknar.

Hver er ávinningurinn af slíkum búnaði?  Vissulega leysir þessi búnaður ekki hugarfar þeirra "gáfumanna" sem stunda þjófnað og tryggir heldur ekki að þeir muni ekki fara inn í þitt húsnæði.  En þessi búnaður gerir viðvart um leið og eitthvað gerist ásamt því að þú, sem eigandi, hefur undir höndum upptökur af atburðinum sem gæti leitt til sakfellingar þessara einstaklinga.  Ávinningurinn gæti því orðið sá að þeir misstu áhuga á að stela hjólabúnaði þar sem þeir vissu að eftirlit er til staðar sem gæti leitt til sakfellingar og hugsanlega greiðslu skaðabóta.

Fyrir áhugasama að þá er hægt að skoða um þessa vél á heimasíðu Opinna kerfa, http://www.ok.is/fyrirtaeki/vorur/WVC200/default.aspx, en einnig er hægt að skoða viðhengi með þessu bloggi til nánari upplýsinga.  En verð á svona vél er í kringum 27-28 þ.kr. út úr búð og er það verðgildi eins mótorhjólahjálms...  Einnig ráðlegg ég fólki sem er með meira en eitt hjól á sínum snærum að leita tilboða hjá öryggisfyrirtæki um heimagæslu, og jafnvel leita tilboða þó það sé ekki með hjól þar sem innbrot er ekkert annað en átroðningur á einkalífi þess sem fyrir því verður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vika 12

Jæja, þá er þessi vika nánast öll.  Ekki var nú spennandi veður til hjólamennsku, en við höfðum það þó af að fara á sunnudaginn í Þorlákshöfn.  Þetta leit ágætlega út til að byrja með, en þegar leið á rigndi orðið ansi hressilega.  Er vægt til orða tekið að tala um að maður hafi verið hundvotur og draslið var hreint út sagt ógeðslegt.  Löðrandi í sandi og drullu.  Brautin var mjög þung og nokkuð töluvert skorin, en samt var þetta bara mjög gaman.  Það þarf nú náttúrulega ekki að spyrja hvernig aðalspennufíklinum leið, en Björk skemmti sér konunglega eins og alltaf.  Anna, vinkona Margrét kom með okkur og Sveinbjörn og fjölskylda komu líka og þar á meðal Solla.  Örn og Karen komu þarna einnig og svo voru nokkrir aðrir útvaldir eins og Valdi o.fl.

En dótið var viðbjóðslegt og bílinn var löðrandi í sandi og skít.  Við vorum í rúma þrjá tíma að þrífa upp eftir okkur skítinn.  Þegar það var búið, var maður búinn að fá nóg.  En þegar þetta er skrifað er maður samt farinn að spá í hvenær maður eigi að fara næst og hvert.  Ég er alvarlega að komast á þá skoðun að Landroverinn er eiginlega of fínn í þetta.  Ekki það að ég tími ekki að nota bílana mína í það sem ég geri, þvert á móti að þá hefur það aldrei verið vandamál.  En samt, að þá er þetta eiginlega of dýr bíll í þessa vitleysu. 

En nóg af nöldri.  Ég tók nokkrar myndir og er ein mjög skemmtileg syrpa af Björk þar sem hún dettur með glans.  Sú myndasyrpa heitir "vagg og velta"... Grin  Hér er bein slóð á þetta myndaalbúm: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Vika12/ góða skemmtun!


Vika 11

Jæja, þá er þessi vika senn að enda.  Ekki voru nein stórkostleg afköst í hjólavirkni þessa vikuna sökum veðurs, en það hefur svo sem ekki farið framhjá neinum að snjór hefur meira og minna legið yfir landinu síðustu daga.  Þar fór sumarspáin hans Hauks fyrir lítið og verður hann ekki ráðin á veðurstofuna ef ég mætti ráða...:o)  Óliver er búinn að vera lasinn alla vikuna og er það líka ein ástæðan fyrir rólegheitum fjölskyldunnar hvað hjólamál snertir. 

Annars var Björk duglegust af okkur, eins og fyrri daginn, og fór hún ásamt Árna vinnufélaga á laugardaginn.  Veður var ágætt framan af en síðan fór að snjóa með látum.  Á sunnudag fórum við öll, nema ég og Óliver sátum hjá og var ég eins og fyrri daginn á bakvið myndavélina.  Haukur setur stórt spurningarmerki við hjónaband mitt þar sem frúin virðist vera á útopnu en ég sit hjá.  Ég benti honum góðfúslega á að ég væri húsbóndinn á mínu heimili.  Ég réði hvort ég vaskaði upp fyrst, eða skúraði...:o) 

Ég verð nú að fara leysa þessi kerrumál eitt skipti fyrir öll, en það er að verða mest hamlandi þáttur hjá fjölskyldunni varðandi hjólamennskuna.  Jæja, ætla ekki að orðlengja þetta meir.  Hér eru nokkrar myndir sem hægt er að fara inn á og skoða frá viku 11: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Vika11/

Annars auglýsi ég orðið eftir hluta af Team Nitro Kawasaki!  Það er alltaf sama fólkið sem mætir á þessar æfingar hjá Nitró og alltaf sami hlutinn sem mætir ekki.  Kannski er maður bara svona bráður og skilur ekki að fólk skuli ekki hjóla á þessum árstíma.  En með hækkandi sól og vonandi hærra hitastigi, að þá munu þeir sem hafa dregið sig í skel koma fram með tilheyrandi hvelli. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sverrir Jónsson
Sverrir Jónsson
Ég heiti Sverrir Jónsson.  Helsta áhugamál mín eru motocross, veiðar, útivist o.fl.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband