Færsluflokkur: Bloggar

Endurokeppni á Hellu 12 maí

Fjölskyldan brá sér heldur betur á skemmtilega keppni á Hellu laugardaginn 12 mai.  En þá fór fram fyrsta endurokeppni sumarsins sem gildir til Íslandsmeistartitils.  Keppendur voru almennt að fíla brautina vel og við sem áhorfendur skemmtum okkur konunglega að hamagangnum.  Það var aðeins eitt sem skyggði á þessa mjög svo stórskemmtilegu keppni, en það var klósetleysi.  En því miður hafði láðst að fá salerni fyrir allan þennann hóp keppenda og áhorfenda þannig að margir lentu í vandræðum á keppnisstað.  Þannig að þeir sem voru komin á sárustu vandræðin urðu bara að láta gossa bakvið næsta hól, hvort sem stórt eða lítið var um að ræða.

Jæja, skítt með það.  Við vorum þarna sérstaklega komin til að fylgjast með Aron og Karen sem kepptu saman í tvímenning og að sjálfsögðu hina sem eru í Team Nitro Kawasaki.  Það er svo sem ekkert leiðinlegt að horfa á þessa toppökumenn í þessa bransa eins og Valda, Kára, Einar o.fl.  En það var mikill hraði á toppökumönnunum.  Mikið mold þyrlaðist upp á keppnisstað og er óhætt að segja það að bíllinn hafi verið orðin ógeðslegur jafnt innan sem og utan.

Ég tók nokkrar myndir af keppninni og setti ég þær í séralbúm sem er að finna á eftirfarandi slóð: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/EndurokeppninnaHellu12mai/


Bolalda 11 maí

Jæja, loksins kom að því að við kæmust að hjóla.  En við höfum ekki komist síðan um síðustu helgi og vorum við orðin ansi trekkt á tauginni.  Bílinn komin í gagnið í bili, það er að búið er að færa þilið aftur og setja 4 manna bekk en það vantar ennþá eina rúðu til að fullklára græjuna.  Það klárast vonandi strax eftir helgi.  En þvílíkur munur að fara á honum á svæðið.  Maður hreinlega trúir því ekki hvað þetta er mikill lúxus fyrr en maður hefur reynt það.

Það voru frekar fáir á svæðinu og kannski ekki nema von.  Flestir að undirbúa sig fyrir Endurokeppnina á Hellu þar sem það virðist vera prýðis þátttaka.  En þeir sem voru á svæðinu voru meira og minna að keyra í endurobrautum og taldi ég mest 8 hjól í motocrossbrautinni á sama tíma.  Ég, sá gamli, fékk loksins að spretta eitthvað úr spori og mikið ofboðslega var þetta gaman.  Hjólið hans Ólivers farið að virka aftur eftir að skítur hafði komist í tankinn og fór alltaf niður í blöndung.  Þannig að hann stoppaði ekki fyrr en hann var kallaður inn.  "Brjálaða Bína" tók á því eins og við var búist og fannst bara gaman.

Mér finnst þær breytingar sem gerðar hafa verið á Bolöldu til batnaðar og brautin er orðin skemmtilegri.  Sjálfsagt verður aldrei hægt að gera alla ánægða hvað brautina varðar, en VÍK má þó eiga að þeir eru þó að reyna að betrumbæta hana.  Stóri langi pallurinn sem verið er að byggja upp og er um það bil 30 metra langur lofar mjög góðu.  Það komu þarna ofurhugar og negldu á pallinn og stukku þvílíkt.  Þessu ungu menn hétu Bjöggi og Vignir (að mig minnir).  Ég tók nokkrar myndir af herlegheitunum og er ég að setja þær inn á netið núna.  Bein slóð á þetta albúm er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/Bolalda11mai/


Helgin 4-6 maí

Undirbúningur að Klausturkeppninni stendur sem hæst þessa dagana og fórum við feðgarnir, ásamt Kela, Árna, Ella, Guðbergi og Birgi, austur á laugardaginn til að laga stikur ásamt lagningu hjáleiða o.fl.  Ég var að koma og skoða aðstæður í fyrsta sinn og verð að segja að þessi braut er mjög skemmtileg.  Við hjóluðum einn heilan hring til að skoða hana og Óliver fylgdi okkur allan hringinn.  Það var töluvert af hættulegu grjóti á sandkaflanum sem þarf að hreinsa upp og einnig var töluvert mikið af brotnum stikum.  Elli og Guðbergur fóru á sandana og uppgötvuðu sér til skelfingar hversu skipulega sumir keppendur hafa verið að svindla síðustu ár.  Alveg merkilegt að menn skuli taka þátt í atburði með það í huga að svindla.  Svo berja menn sér á brjóst og þykjast hafa verið hraðari en næsti keppandi.  Þetta er tóm sjálfsfróun og það sem merkilegast af þessu öllu, að þeir hreykja sér af því hvað þeir voru fljótir vitandi hið sanna í málinu og að þeir hafi svindlað.  Í minni sveit var sagt um svona einstaklinga, "að þegar þeir reyna að stíga í vitið, að þá misstíga þeir sig".

Á sunnudaginn komum við feðgarnir við í Bolöldu og vá hvað það var mikið af fólki þarna.  Satt að segja að þá ríkti hálfgert stjórnleysi þarna.  Búið var að breyta 85cc brautinni töluvert og var hún greinilega það spennandi að ég týndi út 3 fjórhjól úr brautinni á meðan ég var þarna og nokkur 250/450cc.  Manni stundum blöskrar hvað menn eru hugsunalausir þegar kemur að þeirra eigin rass í leikaraskap og þeir víla sér ekki við að fara í brautir sem eru sérmerktar með stóru skilti fyrir yngri aldurshópa.  Það sem verst er af þessu öllu er að stór hluti þessara fjórhjólamanna borgar ekki brautir, þrátt fyrir að skemmdir af þeirra völdum séu gífurlegar.  Sem dæmi að þá hætti Óliver, sonur minn sem var greinilega ekki búinn að hjóla nóg, í 85cc brautinni vegna þess að hún var orðin mjög illa farinn eftir fjórhjól og önnur stærri hjól.  En þegar kemur að því að grísirnir vilja fara í stóru brautina, að þá hneykslumst við á því og viljum að þau séu eingöngu í minni brautum en við vílum okkur ekki við að fara í litlu brautirnar með látum.  Góð fyrirmynd það, eða eins einhver myndi segja "klassa spilamennska". 


Stuttur skreppur í Bolöldu

Það var brunað með látum í Bolöldu upp úr átta í kvöld, en eingöngu skvísurnar á heimlinu ætluðu að hjóla þar sem Ólivers hjól er í smá "upphalningu" og ég hreinlega nennti ekki að fara að þrífa 3 hjól eftir kvöldið.  Fannst nóg um að þrífa 2 hjól.  Veður var með ágætasta móti og sólin búinn að vera að gægjast fram úr skýjunum frá því seinni partinn í dag, en það var samt í kaldara lagi og þegar við fórum að þá var einungis 2,5°C hiti. 

Það voru fáir á svæðinu þegar við komum, eða um það bil 15 hjól.  Í stuttu máli að þá skemmtu skvísurnar vel eins og við var að búast, en kvörtuðu yfir að sólinni þar sem hún var fulllágt á lofti og blindaði þær.  Björk kolféll fyrir Reyni #3 í orðsins fyllstu merkingu, og sá ekki sólina fyrir honum...Smile  Ég tók nokkrar myndir af hinum og þessum og setti þær í nýtt albúm.  Beinn linkur er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/Bolalda3mai/


Kerruhallærið úr sögunni

Jæja, þá er endanlega búið að leysa þetta kerruhallæri sem ég hef verið að velta mér upp úr síðustu mánuði.  Eftir miklar pælingar og áætlun um að flytja inn svokallaðan "Toy Hauler" frá hinni stórmerkilegu Ameríku, að þá vendi ég mínu kvæði í kross og við hjónin ákváðum að fara í hóp þeirra sem nota sendibíl í hjólamennskuna.  Fyrir valinu varð eðaltæki frá Volkswagen af tegundinni Craft sem við keyptum hjá Heklu.  Til að reyna að fullnýta bílinn til hjólamennsku að þá þarf hann að fá smá andlitslyftingu, þrátt fyrir ungan aldur, og felst það fyrst og fremst í því að færa þilið fyrir aftan sætin afturábak og setja í hann 4 sæta bekk.  Þar með er drekinn orðin 7 manna.  Við fengum smá nasasjónir af því hvernig það er að vera með bílinn um síðustu helgi, fyrir breytingu, og er óhætt að segja það að sú upplifun hafi ekki valdið vonbrigðum.  Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur allt saman út þegar hann verður fullmótaður blessaður, en byrjunin lofar góðu.

Fyrir þá sem hafa áhuga eða langar að forvitnast um þennann bíl, að þá bendi ég þeim á að tala við Margeir hjá Heklu í atvinnubíladeildinni.  Margeir er gamall refur í crossinu og þekkir hinar og þessar þarfir hjólamanna.  Hér er líka beinn linkur á bílinn: http://www.vw.is/volkswagen/atvinnubilar/crafter/ 


Helgin 28-29 apríl

Hef þetta ekki mjög langt í þetta sinn vegna anna.  En mæðgurnar tóku þátt í námskeiði hjá Ed Bradley síðastliðinn laugardag og voru mjög ánægðar með hann.  Þrátt fyrir að vera með nokkuð stíft prógram að þá virkaði hann aldrei stressaður og skýrði mjög vel og greinmerkilega hvað það væri sem hann vildi að stúlkurnar gerðu.  Æfingin byrjaði upp úr 10 um morgunin og endaði ekki fyrr en rúmlega 17.  Um þetta leyti var komin mikil stemming í þennann hóp svo að úr varð að þær hittust allar í mat heima hjá okkur.  Björk snaraði fram mexíkanska kjúklingasúpu fyrir allt liðið á "no time" ef svo má að orði komast.   Á meðan að sest var að snæðingi voru skoðaðar myndir frá æfingunum þennan dag og er ég að setja eitthvað af þessum myndum á netið núna.  Beinn linkur á þetta albúm er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/AEfinghjaEdBradley/  

Það er mjög gott fyrir sportið að einhver/einhverjir skulu nenna að standa í því að flytja inn erlenda þjálfara af þessu "kalíberi" og allar þær stúlkur sem ég talaði við voru allar á sama máli um að þetta hefði verið hreint út sagt frábært.  Pétur á þakkir fyrir að hafa staðið að þessu.

Annars var mjög spennandi að sjá viðbrögðin hans Ed og örugglega mjög ólíkt fyrir hann að þjálfa svona valkyrjur eins og þær íslensku eru.  Þrátt fyrir að vera yfirvegaður og skýra hlutina vel út, að þá varð hann stundum kjaftstopp við athugasemdum stúlknana og þá sérstaklega þegar kom að útskýringum með staðsetningu á afturendanum á hjólinu..Grin  Þær sem voru viðstaddar verða að hreinlega að skýra það sjálfar fyrir þeim sem spyrja...  Einnig er komin grimm samkeppni um það hver hneppir hnossið um að verða "Miss Bradley"...InLove  Alla vega gekk grínið hjá stelpunum út á það.  Spurning hvort við setjum á gang veðbanka um málið?  Einnig skilst mér að ein beygjan eigi að hafa kvennmanslögun þar sem þær hafi nánast fullmótað hana á þessu námskeiði..Smile 

Á sunnudaginn fórum við í Bolöldu ásamti Sveinbirni og þar hittum við fyrir nokkra af þeim sem tóku þátt í námskeiðinu deginum áður.  Einnig hittum við Margeir frá Heklu og fleiri sem of langt er að telja upp hér.  Ég fékk loksins að hjóla og skemmti ég mér mjög vel.  Því miður urðum við að hætta um tvöleytið þar sem Margrét þurfti að fara að vinna.

 


Spánarfararnir komnir heim

Þar kom að því að farfuglarnir skiluðu sér heim.  Miðað við lýsingarnar af ýmsum flugferðum Bjarkar að þá bjóst ég við henni fagurblárri og heiðgulri á lit sökum marbletta, en viti menn hún leit bara ágætlega út blessunin.  Fékk þó nýtt viðurnefni á Spáni hjá þeim sem sáu herlegheitin og var það "Freestyle Mama"...Grin  Þrátt fyrir óvæntar freestyle æfingar með tilheyrandi lendingum að þá skemmtu mæðgurnar sér konunglega, eða á maður að segja drottninglega svo maður verði ekki barin í hausin af feministum?  Þær voru alla vega mjög sáttar.

Brautirnar voru allt öðru vísi heldur en hér heima og miðað við þær brekkur og palla sem voru í gangi á Spáni, að þá virðist allt á Íslandi vera svo lítið í samanburðinum að þeirra sögn.  Hægt er að kíkja á linkinn hjá þeim sem leigði hjólin á eftirfarandi slóð: www.solmoto.com.  Ég er að vinna í að setja nokkrar myndir á netið úr ferðinni, en þar sem ég var ekki með í þessari ferð að þá verður ferðasagan ekki mikið lengri í þetta sinn.  Beinn linkur á þetta myndaalbúm er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/Spanaraevintyrid/    


Fyrsti túrinn með Óliver í Bolöldu þetta árið

Jæja, litli maðurinn linnti ekki látum fyrr en ég lét undan í morgun og fór með hann upp í Bolöldu.  Veðrið var nú ekkert yndislegt í byrjun, rigningarsúld en hiti þó hátt í 7°C.  Það var nú bara hellings líf í Bolöldu þegar við komum þangað og greinilegt að þar er öllu meira um að vera en öðrum brautum hér í kring.  Það sem kom mér mest á óvart var hvað það var mikið af nýju fólki á svæðinu og bara nokkuð af nýjum kvenkyns ökumönnum sem er hið besta mál.  Miðað við þessa ásókn í byrjun tímabils og brautin ný opnuð að þá gæti svo farið að það yrði bílastæðahallæri í sumar, þrátt fyrir að bolalda sé með eitt af stærri bílastæðum landsins fyrir brautariðkendur.  

Þetta var fyrsta ferðin okkur upp í Boöldu í ár til að hjóla, eða réttara sagt hann Óliver var að hjóla þar sem ég ákvað að sitja hjá í dag.  Stóra brautin leit bara nokkuð vel út og 85cc brautin líka en hún var samt með yfirborðsbleytu sem gerði það að verkum að Óliver var nánast búinn að skipta litum eftir nokkra hringi.  Hann skemmti sér samt konunglega og ég þakkaði guði fyrir að hafa einungis tekið eina tank áfyllingu þetta skiptið, því ég hefði seint náð honum úr brautinni ef ekki væri fyrir bensínleysi.  Það sem Óliver fannst mest spennandi við Bolöldu í dag er að þar er svo breiður aldurshópur sem er að hjóla.  En stundum þar sem við höfum verið að þá er hann kannski sá eini á sínum aldri sem er á svæðinu, en þarna var meira um jafnaldra.  Gummi vinnuvélagi og Arnar sonur hans komu svo líka þarna og hjálpuðu upp á að gera daginn skemmtilegri.  Einnig birtust þarna Örn með Karen og Aron og svo má lengi halda áfram að telja.

Við héldum heima á leið um tvöleytið og mættum þá Berglindi og Nonna sem voru að mæta á svæðið.  Heima beið hefðbundið þrif á hjólum og búnaði.  Þið verðið að fyrirgefa þó ekki sé mikið af myndum upp á síðkastið.  En þar sem mæðgurnar tóku aðal myndavélina með sér út, að þá er maður ekki eins duglegur við þetta.  Það verður þó bragabót á því á næstunni þar sem þær koma heim rétt fyrir miðnæti í kvöld.  Lifið heil! 


Sólbrekka laugardaginn 21 apríl

Við feðgarnir risum úr rekju fyrir 08 í morgun til að gera okkur klára til að fara í Sólbrekku.  "Mini mi" var að vísu löngu vaknaður og búinn að næra sig þegar að ég staulaðist framúr upp úr 07:30 og taldi mig vera alveg nógu snemma í því að teknu tilliti til að það er laugardagur.  En svo var nú aldeilis ekki að mati Ólivers.  Við græjuðum hjólin á kerruna og hentum draslinu inn í bílinn og fórum að sækja Aron Leópoldsson (www.icemoto.com) sem ætlaði með okkur þennann dag.  Yfir öllu var hálfgerð grámygla en hann hékk þó að mestu þurr fyrir utan smá skvettur hér og þar. 

Brautin hefur látið töluvert á sjá frá því að fimmtudaginn og var orðin mjög skorin í drullukaflanum sem alltaf virðist myndast á sama stað í þessari braut, þ.e. í einni beygjunni sem kemur að einum pallinum áður en komið er að beinum kafla í átt að starthliðinum.  Spurning hvort ekki hefði mátt hafa jarðvegsskipti að hluta á þessum 20-30 metra kafla sem verður alltaf eitt drullusvað.  Þrátt fyrir þessa annmarka að þá var dagurinn bara skemmtilegur að vanda þegar maður fer að hjóla.  Úthaldið er að aukast hjá manni og Óliver keyrir bara þangað til hann verður bensínlaus...Smile   

Það var óvenju fámennt í byrjun og við vorum nánast einir í brautinni þar til upp úr hádegi þegar loksins fólk fór að drífa að.  En þá birtust meðal annars Aron, Karen og Örn E., en Óliver var búinn að bíða óþolinmóður eftir að þau birtust.  Síðan kom Ágúst sem tók nokkur stökk á freestyle-pallinum og sýndi okkur smá "heelclicker" sem var flott að sjá.

Eitt vil ég koma að til aðstanda brautarinnar, eða VÍR, og það er að nýjasta útspil þeirra eftir lokapallinn áður en farið er yfir veginn er nánast út úr kú ef ég má komast svo að orði.  Ég hreinlega skil ekki hvaða gagn er í að setja þetta á þessum stað þar sem ekki er aðstaðan til lendingar hinum megin við vegin glæsileg ef komið er á fartinu til að stökkva.  Eins og þetta er byggt núna að þá er tölverðar líkur á því að slys eigi eftir að verða þarna á þessum stað og er það ekki bara álit mitt heldur allra sem voru þarna í dag.   


Sumardagurinn fyrsti og vonandi ekki sá síðasti...

Í dag er sumardagurinn fyrsti, hvernig sem menn fóru nú að því í "den" að ákveða allt í einu að nákvæmlega þessi fimmtudagur skyldi vera upphafið að sumrinu.  En það verður þó að segjast að það rættist bara nokkuð vel úr þessum degi.  Það var að vísu skítkalt í morgun og fraus vetur og sumar saman í nótt eins og fyrrgreindir spekingar mæla með og halda vart vatni yfir.  Við feðgarnir, þar sem við erum einir í búinu, ákváðum að skella okkur í Sólbrekku eftir að Óli H. G. hringdi í okkur í gær og tjáði okkur að hluti af 85cc liði Team Nitro Kawasaki myndi vera það við æfingar í morgun.  Við vorum að vísu ekki eins morgunbrattir og oftast áður, enda þurfti nú að týna ýmislegt til þar sem eitt og annað var farið úr skorðum við utanlandsferð mæðgana.  Við tókum með okkur farþega, þar sem aldrei þessu vant var laust pláss á kerrunni og kom Haraldur jr. með okkur suður eftir. 

Við vorum komnir á staðinn um 11 leytið og var farið að hlýna, en þó ekki nema 3°C.  Sólbrekkubrautin var einungis í þokkalegu ástandi þrátt fyrir vinnu síðustu daga af hendi VÍR og er frosti síðustu nætur fyrst og fremst um að kenna, en eitthvað vantar ennþá upp á að frostið sé horfið að fullu úr brautinni.  Fyrri hlutinn er þó sínu verri en sá síðari sem er í ágætasta standi.  Þrátt fyrir misskiptingu gæða brautarinnar, að þá skemmtum við feðgar okkur ágætlega í dag.  Hjólin urðu að vísu ógeðsleg, en "hei!", þetta er ekki kallað sport drullumallarana fyrir ekki neitt  Þegar leið á daginn að þá keyrði ég alla vega eingöngu síðari helming brautarinnar vegna aurbleytu.  Jói, sonur Óla, hafði það af að slíta kúplingsbarka og verður að segjast að þessum dreng eru ýmsir hæfileikar gefnir umfram aðra, eða í það minnsta að slíta hluti eins og mjög sterkar keðjur o.fl...Smile  Óli faðir hans var svona mishrifinn af uppátækinu þar sem þetta kallaði af viðgerð af hans hálfu, en þetta fylgir við notkun þessara hjóla.  En fyrir vikið sat hann hjá meira og minna allan tíman sem aðrir drengir voru að hjóla og hefði sumir sýnt meiri bræði en þessi drengur gerði.

Við pökkuðum svo saman upp úr 2 leytið og þá loksins var eitthvað farið að tygjast inn á svæðið af fólki.  En það kom okkur feðgum á óvart hversu fámennt var þennann morgun þar sem "jú", fólk var í fríi.  Við skiluðum Haraldi jr. af okkur og þrifum svo hjólin með stæl eins og okkur er von og vísa.  Þar sem veðrið, þrátt fyrir ekki hátt hitastig, var með besta móti að þá hlakkar okkur feðgum verulega orðið til framhaldsins í sumar og vonum að þetta verði eitt stórt alls herjar hjólasumar hjá fjölskyldunni þetta árið.  Þannig að við endum þetta með klassískum frasa, "gleðilegt sumar".

Eitt verð ég þó að minnast á í lokin.  Við höfum verið að sjá nokkuð af ungum ökumönnum, bæði stelpum og strákum, án viðeigandi skóbúnaðar.  Eins ánægður og ég er með nýliðun í sportinu að þá eru það ansi blendar tilfinningar að sjá þetta lið með allt nýtt, hjálm, búning og hjól en láta svo jafn mikilvægt atriði sitja á hakanum eins og skórnir eru.  Skora ég á þetta unga fólk sem og aðstandendur þeirra til að hysja upp um sig brækurnar í þessum efnum og gleyma ekki að hlífðarbúnaðurinn er ef eitthvað er mikilvægari en hjólið.  Einnig hef ég orðið töluvert var við umferð "pitbike" og annarra crosshjóla í vallarhverfi í Hafnarfirði og vill ég koma því til skila til þeirra sem eiga í hlut að sú umferð er með öllu óheimil þar sem hjólin eru ekki götuskráð og þið eruð ekki að gera ykkur né öðrum hjólamönnum neinn greiða með slíkri hjólamennsku á gangstéttum og stígum bæjarins.  Ef eitthvað er, að þá aukið þið andúð samborgara og þeirra sem gefa heimildir fyrir slíkum ökutækjum til muna sem geta leitt til aukinnar reglugerða með boðum og bönnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sverrir Jónsson
Sverrir Jónsson
Ég heiti Sverrir Jónsson.  Helsta áhugamál mín eru motocross, veiðar, útivist o.fl.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband