Laugardagur, 18. ágúst 2007
4 umferð Íslandsmótsins í Sólbrekku afstaðin
Einn af fyrirboðum haustsins er afstaðinn, en það er motocrosskeppnin í Sólbrekku. Eins og fram kemur í fyrirsögn að þá var þetta 4 umferð, en samtals eru þær 5 talsins og sú síðasta fer fram í Bolöldu 1 september. Það þýðir að liðið hefur um 2 vikur til að laga það sem þarf að laga til að ná betri úrslitum en í þessu móti.
Skráðir keppendur voru um 120 og þar af voru kvenkynskeppendur um 26. Mótið var allt hið bærilegasta og skemmti ég mér ágætlega þar sem ég þeyttist á milli til að taka myndir. Brautin var mjög skemmtileg að sjá, en eins og fyrra töluvert um ryk sem læddist inn um allt. Fjöldi áhorfenda var á keppninni og það sem ánægjulegast var, það var að sjá ný andlit. Ekki bara aðstandendur og þátttakendur eins og svo oft áður. En það hefur loðað svolítið við afstaðnar keppnir að eingöngu þeir sem eru á kafi í þessu mæti til að fylgjast með.
Ég var hæstánægður með kerlu, brjálaða Bínu, þar sem hún keppti og keyrði bara ágætlega þrátt fyrir að vera með rifna vöðvafestingu á öxl. Ekki byrjaði ballið vel fyrir hana, þar sem hún prjónaði af stað og datt og síðan keyrði hjól í þokkabót yfir hausinn á henni. En hún fór upp og af stað og kláraði fyrsta motoið bara með stæl þrátt fyrir fyrrgreinda annmarka. Seinna motoið gekk betur hjá henni og átti hún bara hið ágætasta start. Ég er ekki með endanlega úrslit en mig minnir að hún hafi verið í kringum 10-12 sæti í opna kvennaflokknum.
Margréti gekk aftur móti ekki alveg eins og við höfðum óskað okkur. Ekki það að hún kom ágætlega út úr fyrstu beygjunni eftir ræsingu og var með ágætis stöðu í þriðja sæti í sínum flokki í fyrsta motoi þegar hún varð fyrir því óláni að detta og drepa á hjólinu. Við það missti hún nokkra keppendur fram úr sér. Hún keyrði mjög grimmt til að vinna upp forskot þessara keppenda og þegar hún var búin að tína upp nánast alla þá sem hún hafði misst framúr sér, að þá datt hún aftur. Refsingin við svona mistök eru afdrífarík og endaði hún í 5 sæti eftir fyrsta moto. Í öðru motoi hélt óheppnin áfram að elta hana og drap hún á hjólinu í fyrstu beygju, hvernig sem hún fór að því. Var hún nánast síðust þegar hún kom því aftur í gang. En hún sýndi mikið keppnisskap og keyrði mjög vel í síðara motoinu og urðu mistökin ekki fleiri þennan daginn sem skilaði því að hún náði 3 sæti í seinna motoinu. Þannig að hún endaði í 4 sæti í sínum flokki.
Hvað aðra keppendur og sigurvegara varðar, að þá sigraði Karen Arnadóttir í opna kvennaflokknum. Bryndís sigraði í 85cc kvenna og Eyþór í 85cc drengja. Viktor kom, sá og sigraði í MX unglinga en hann kom alla leið frá USA til að keppa á þessu móti. Greinilegt að drengurinn er í fantaformi. Gulli sigraði síðan MX2 og svo síðast en ekki síst að þá sigraði "gamla" kempan Einar í MX1.
Hvað myndir varðar, að þá tók ég nokkrar. Eða aðeins tæplega 1700 myndir. Ég mun reyna að byrja að henda einhverju inn í kvöld, en þarf að byrja á að hreinsa til þar sem ég hef hreinlega ekki lengur pláss á þessari bloggsíðu. Sjáum hvað setur, en bein slóð á myndalbúmið er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/SolbrekkaMX4/. Allavega á ég nokkrar krassandi myndir frá í dag þar sem nokkrir vel kunnir keppendur fóru á hausinn... Einn keppandi slasaðist á mótinu og þurfti aðhlynningu í bænum, en það var Freyja #999 og óskum við henni góðs bata.
Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Motocrossbrautir á suðvesturhorninu á leiðinni til fjandans??
Stórt er spurt, en það er ljóst að sú ásókn sem er orðin er í þetta sport að núverandi brautarfjöldi á suðvesturhorninu annar ekki núverandi umferð við óbreyttar aðstæður. Um leið og búið að gera eina braut klára, að þá er hópmæting í hana og það tekur aðeins 2-3 daga að keyra hana niður í sama horf og hún var fyrir viðgerð. Þá er næsta tekin fyrir og svo koll af kolli. Það er eitt að hafa svæði til taks, en annað að ná að viðhalda þeim af viti. Félögin eru rekin af allt of fáum einstaklingum sem bera hitann og þungan af mjög svo óeigingjörnu starfi. Það þarf meira til ef þetta á að ganga upp hjá flestum félögum. En ástandið er eftirfarandi:
Bolalda: Jarðýtan biluð og erfitt að fá verktaka til að hlaupa undir bagga. Viðgerð lokið að sinni og vonandi verður byrjað að laga hana í kvöld. Annars er brautin glerhörð og sleip.
Sólbrekka: Erfitt að fá verktaka til að hlaupa undir bagga. Eru í vandræðum með að halda henni eins lengi opinni og hægt er fram að helgi vegna mótsins. Annars er brautin orðin mjög illa farin þrátt fyrir viðgerðir í síðustu viku og allt að því hættuleg. Vonast er til að viðgerð hefjist í kvöld
Þorlákshöfn: Veit lítið um núverandi ástand brautar, en vissi að þeir voru í manneklu með að halda henni gangandi fyrr í sumar.
Selfoss: Veit lítið um núverandi ástand brautar, en eitthvað virðist hafa dregið úr áhuga þeirra heimamanna við slys nýlegs formanns sem því miður slasaði sig nokkuð illa. Við óskum honum góðs bata.
Akranes: Eftir því sem ég best veit, virðist þessi braut vera í þokkalegu ástandi og hópmæting væntanleg í kvöld.
Eins og sést á þessu að þá er ekki um auðugan garð að grisja. Enda hefur tíðarfarið verið klúbbum afskaplega óhliðhollt, þó við hin sem elskum sól og meiri sól séum kannski ekki á sama máli. Staðreyndin er hins vegar sú að brautirnar slitna mjög hratt við þessar aðstæður og klúbbarnir í miklum vandræðum að halda þessu við vegna óvenju mikils slits. Einhverjar hugmyndir hafa verið með "sprinkler" kerfi, en það er mikil fjárfesting fyrir félög sem rekin eru nánast með tapi og sérstaklega þegar svo stutt er eftir af tímabilinu. En félögin þurfa líka að huga að þau eru að verða af tekjum þegar brautirnar eru eins og þær eru og fólk fer að leita annarra leiða til að hjóla.
Þriðjudagur, 7. ágúst 2007
3 umferð Íslandsmótsins á Akureyri og Dennis kveður
Jæja, þá er þessi stóra helgi afstaðin. Ætla nú ekki að röfla um drykkjumenningu eða siði okkar Íslendinga að hella okkur út úr skakka um þessa helgi eins og skyldu sé að ræða. En eins og fram hefur komið áður á þessari síðu, að þá fór fram 3 umferð Íslandsmótsins á Akureyri um helgina. Ekki var nú veðrið eins og minn gamli heimabær hefur oft verið margrómaður fyrir, en það slapp nú samt fyrir horn. Þetta minnti mann óneitanlega að haustið kemur yfirleitt strax eftir verslunarmannahelgina. Spurning að fara að huga að skotveiðinni í stað hjólsins, svona einu sinni...
Hvað sem því líður að þá var gaman fyrir norðan á mótinu. Umgjörðin með besta móti og eiga þeir Akureyringar þakkir skilið fyrir skemmtilegt mót. Brautin var flott og allir sem ég hafði orðastað við töluðu um að það væri gaman að hjóla í henni. Mæðgunum gekk bara bærilega fyrir norðan og var Björk í 10 sæti yfir það heila, en Margrét var í 4 sæti. Hún var í 3 sæti eftir fyrsta moto og hélt því eftir rúma 2 hringi í moto 2, en þá var endurræst. Hún náði mjög svo lélegu starti í endurræsingunni og þrátt fyrir harða atrennu að ná upp í 3 sæti, að þá endist henni ekki tíminn til að klára málið og því fór sem fór. En ég er samt í skýjunum yfir árangri þeirra mæðgna þar sem getan hefur vaxið gífurlega. Sérstaklega hefur Margrét tekið miklum framförum og mikill munur á að sjá hana hjóla fyrir um ári síðan í þessari braut versus núna.
Annars er það einn helst breytingin að hann sænski Dennis, þjálfari, er farin af landi brott og skilur eftir sig stórt gat í þjálfunarmálum þar sem ég veit ekki til þess að búið sé að finna arftaka fyrir hann ennþá. En skv. námskeiðunum sem skipulögð voru, að þá áttu þau ekki að klárast fyrr en í kringum 25 ágúst. Við þökkum Dennis fyrir skemmtileg kynni og vonumst eftir að sjá hann fljótlega aftur.
Myndir frá Akureyri... Já, þá er það með þessar blessuðu myndir. Ég tók hátt í 1100 myndir fyrir norðan í keppninni og spurningin er hvað ég á orðið að gera við allar þessar myndir, þar sem þær eru langt frá því að vera allar af minni fjölskyldu. Alla vega er það orðið ljóst að rýmið mitt á þessari bloggsíðu er eiginlega sprungið og einnig er þetta farið að taka drjúgt pláss á minni prívat tölvu. Ég mun þó henda eitthvað af þessum myndum inn á næstunni, en ég hef nú þegar valið hátt í 350 myndir til að setja á þennan vef. En þetta getur orðið í síðasta skiptið sem þessa síða hýsir nýjar myndir af móti þar sem allar þessar myndir taka jú pláss hjá hýsingaraðila og það pláss er ekki ókeypis. Ég mun byrja að henda inn myndum í nótt en geri ekki ráð fyrir, sökum fjöldans, að vera búin að koma þeim öllum fyrir fyrr en á miðvikudag eða jafnvel ekki fyrr en á fimmtudag.
Miðvikudagur, 1. ágúst 2007
Það var allt svo gott í "den"
Nú fer senn að liða að verslunarmannahelginni og á sama tíma fer í hönd 3 motocrossmót sem gildir til Íslandsmeistaratitils. Veðurspáin er síbreytileg og síðasta spá hljómar upp á lítils háttar rigningu, en við látum það ekki á okkur fá. En ástæða þessa skrifa er það að ég sakna svolítið þess fítus að geta séð hvaða aðilar (í hvaða flokk) og hversu margir hafa skráð sig til keppni, svona eins og hægt var í "gamla daga" þegar skráningin fór fram í gegnum motocross.is. Fyrir einhverja hluta sakir virðist þessi fítus ekki vera upp á pallborðinu hjá MSÍ. Oftar, frekar en ekki, virkaði þetta sem hvati fyrir hina sem voru í vafa og ég þekki nokkuð mörg dæmi þess að fólk hefur skráð sig eftir að hafa séð aðra skrá sig. Það var líka alltaf smá spenna að sjá hverjir voru búnir að skrá sig í hvaða flokk, þ.e. hverjir gengu heilir til heilsu og hverjir ekki. Nú finnst mér vera búið taka smá "fútt" úr þessu með að gera þessar upplýsingar ekki aðgengilegar. Þetta er jú einstaklingssport en samt er ákveðin kjarni sem er alltaf tilbúin til að gera eitthvað, ef það sér að einhver annar aðili er tilbúin til þess sama.
Jæja, best að hætta þessu væli en hvet hér með MSÍ til að opna þetta þar sem gegnsæi er bara af hinu góða. En að lokum skora ég á alla að mæta, bæði keppendur og áhorfendur, til Akureyrar og verða vitni af skemmtilegri keppni um helgina. Fyrir þá sem vilja ekki gista, að þá er þetta smábíltúr... Látið mig þekkja það, búin að keyra fram og til baka innan sama sólarhingsins oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Sunnudagur, 29. júlí 2007
Brugðið sér út fyrir bæjarmörkin
Ekki er öll vitleysan eins, en við hjónin ákváðum að bruna norður í morgunsárið þennan laugardag. Ekki vegna þess að við ætluðum að eyða helgina á Akureyri. Nei, alls ekki. Við ætluðum eingöngu að hjóla í nokkra tíma og brenna svo aftur í bæinn, sem við og gerðum. Nú er maður að skrifa um þessa ferð þegar klukkan er að nálgast fjögur aðfaranótt sunnudags. Með í för, fyrir utan hefðbundna fjölskyldumeðlimi, voru Ingibjörg og Guðfinna.
Við lögðum í hann upp úr 10 um morguninn þar sem eitt og annað hafði láðst að ganga frá vegna tímaleysis deginum áður. Engar óvæntar uppákomur á leiðinni norður og vorum við komin á staðinn um kl.15:20. Þennan morgun hafði verið námskeið hjá Herr Valda Pastrana og voru nokkrir nemendur hans í óða önn að grjóthreinsa brautina eftir afrek dagsins. Brautin er flott og alltaf gaman að keyra hana. Það er alla vega alveg þess virði að okkar mati að brenna norður og til baka innan sama sólarhringsins, þó ekki sé nema til að hjóla í nokkra tíma. Aldrei þessu vant fékk ég að hjóla líka með stelpunum og finnst mér þessi braut í geðveikari kantinum. Óliver finnst alltaf gaman fyrir norðan, fyrir utan að hann stóð ítrekað á öndinni vegna astmakast sem hann fékk og naut sín því ekki sem skyldi.
Eftir erilsaman dag í brautinni, var öllu pakkað saman og við brunuðum á veitingastað þar sem hægt var að kýla út vömbina. Eitthvað voru þarfir manna misjafnar, en við hjónin ásamt Óliver enduðum á Nings en Margrét og þær á Subway. Við náðum ekki að leggja af af stað í bæinn fyrr en upp úr 10 og vorum við að renna inn í Mosfellsbær um kl. 01:40 og var þá alla liðið rotað af þreytu fyrir utan gamla fólkið sem náði að halda sér vakandi á þrjóskunni. Er við loksins náðum að renna í hlað að þá uppgötvaði maður hversu þreyttur maður var orðin, en þetta var samt ógeðslega gaman. Við alla vega förum í rúmið mjög sátt við skemmtilegan dag.
Ég mun byrja að henda inn myndum seint á sunnudagskvöldið og verður hægt að fara beint inn á þær á þessari slóð: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Akureyri28juli/. Að lokum vill ég þó benda öllum hugsanlegum þátttakendum í keppninni á Akureyri að skrá sig nú í tíma og fyrir hina að mæta norður til að horfa á eina af skemmtilegustu keppni ársins í motorcrossi þetta árið. En brautin er mjög áhorfendavæn. Sjáumst hress á Akureyri um verslunarmannahelgina...
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
Farvel, Dean...
Jæja, þá er Dean búin yfirgefa skuðið og kunnum við honum bestu þakkir fyrir samveruna sem við áttum saman þá daga sem hann eyddi með okkur. En við náðum ágætis sambandi við hann og stefnum á heimsókn til hans einhvern tímann. Hann bað okkur að skila kveðju til allra sem hann hafði hitt og óskaði öllum hins besta.
Síðasta kvöldið eyddum við með honum í Sólbrekku þar sem Björk og Óliver fóru að hjóla eftir að hjólinu voru búin að fá smá yfirhalningu hjá honum Jóni. En á staðnum voru fyrir t.d. Karen og Bryndís sem voru að hjóla saman ásamt hluti af hópnum sem Dean hafði verið að kenna og nýi þjálfarinn Dennis. Brautin var ekkert merkileg, fyrir utan að legu hennar, en hún þarfnast orðið töluvert viðhalds. Er synd hvað erfiðlega gengur að halda henni við þar sem þetta er ein af betri brautum landsins. Loksins hafði VÍR náð í jarðýtu til verksins og var brautin lokuð eftir þetta kvöld í óákveðin tíma. En mjög svo erfiðlega hefur gengið að fá einhvern á jarðýtu til verksins þar sem allir eru að drukkna í vinnu.
Hvað sem því líður að þá skemmti Björk sér vel og Óliver var líka nokkuð sáttur. Ég tók nokkrar myndir frá þessu kvöldi og má finna þær á eftirfarandi slóð: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Solbrekka24juli/
Mánudagur, 23. júlí 2007
Gaman á Króknum
Laugardagurinn fór óvænt í að Björk ákvað að taka þátt í bikarkeppninni á Sauðárkróki eftir hvatningar símtal frá Helgu sem ætlaði sér svo sannarlega að keppa. Þannig að það þýddi annað en að fara að pakka niður seint á föstudagskvöldið og athuga hvort að frúin gæti tekið þátt, þar sem hún hafði ekki skráð. Enda stóð þátttaka ekki til. Síðan var lagt snemma í hann á laugardagsmorgun norður á Krókinn, ég, Björk og Dean Olsen sem kom með okkur. Við vorum komin norður upp úr 12 og þá var farið beint í að innbyrða einhverja næringu sem var þó ekki nema í pylsuformi í þetta skipti.
Veðrið var með ágætasta móti fyrir norðan og þeir þátttakendur sem við hittum voru allir í góðu skapi. Enda var það eiginlega merki keppninnar, þ.e. góða skapið. Greinilegt á öllu að fólk var þarna komið til að hafa gaman af því. Við uppgötvuðum við komuna að það var eitt og annað sem við höfðum gleymt, en við lifðum það af. Aðal málið var að mæta og brosa í gegnum þetta allt saman. Brautin leit vel út í fyrstu, en í ljós kom að hún hafði verið nokkuð vel þjöppuð og stórir steinar komu fljótlega í ljós eftir nokkrar umferðir í brautinni. Mörgum fannst hún nokkuð laus í sér og áttu nokkrir í smá erfiðleikum með að "fóta sig" í brautinni. En eitt voru allir sammála um, og það var að hún væri skemmtileg.
Einar #4 hafði sigur af í MX1 og er ljóst að Einar ætlar að taka árið 2007 með trompi. Gylfi náði loksins að klára heilt mót án þess að fara úr axlalið, en hann var að keppa á 250cc hjóli og naut sín vel sem sýndi sig í því að hann sigraði í MX2. Kristófer Finnsson sigraði í MX unglinga, en sá sem mér fannst einna skemmtilegast að horfa á var Hafþór Grant #430. En hann er nýkomin af 85cc hjóli yfir á 250cc og svínvirkaði "Súkkann" hjá honum. Eyþór sýndi yfirburða akstur í 85cc drengja og sigraði. Í kvennaflokki sigraði Signý eftir geysilega skemmtilega barráttu við Bryndísi. Hvað Brjáluðu Bínu varðar að þá var þetta ekki hennar dagur og fann hún sig aldrei í keppninni. Var hún ekki alveg sátt við sig í lok dags. Helga vinkona okkur stútaði kúplingunni eftir fyrsta moto og var úr leik af þeim sökum.
Ég er byrjaður að henda inn myndum frá keppninni, en þetta tekur smá tíma. mbl.is mætti nú aðeins gera þetta notendavænni og gefa manni tækifæri á að henda inn heilli möppu, en ekki einskorða þetta við mesta lagi 10 myndir í einu. Vegna þessa tekur þetta tímana tvo.
Miðvikudagur, 18. júlí 2007
Helga! Myndirnar frá Akureyri komnar inn...:o)
Mánudagur, 16. júlí 2007
Loksins komin aftur á skuðið til að hjóla
Já, það var létt yfir mér þennan sunnudagsmorgun þar sem ég var að komast eftir rúmlega vikutíma á hjólið. Stefnan hafði verið tekin á Landeyjar, þar sem við ætluðum að heilsa upp á Örn, bróðir Bjarkar, og fjölskyldu. Með í för voru Dean Olsen, sonur og eiginkona sem var nýkomin til landsins. Veðrið gat ekki verið betra. Það átti að prófa braut sem þarna á staðnum ásamt því að skjótast niður í fjörur til að hjóla á sandtoppunum sem myndast með hjálp sjávar.
Brautin koma á óvart og greinilegt að sú vinna sem Hjálmar, eigandi, hafði sett í brautina hafði skilað sér. Er þetta enn eitt dæmið þar sem berlega kemur í ljós að mikill áhugi getur verið vísir að skemmtilegum hlutum. Síðan var haldið niður í fjöru og voru sandtoppar nánast eins langt og augað eygði. Var þetta hin mesta skemmtun, fyrir utan að hjólið hennar Bjarkar bilaði eina ferðina enn. En hjólið hennar er nýkomið úr viðgerð þar sem stimpilstöngin brotnaði þar sem einhver lega gaf sig. Sama virðist vera upp á teningnum núna. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort að "Brjálaða Bína" hafi verið glöð með þetta... Sem betur fer náðum við að koma hjólinu upp á bíl þar sem dágóður spotti var að bústaðnum og kunnum við Sævari þakkir fyrir að gefa sér tíma til að ná í hjólið. En hann var á heimleið þegar atvikið kom upp.
Hvað sem því líður að þá var þetta skemmtilegur dagur og Óliver fílaði sig alveg í ræmur. Dean og fjölskylda naut lífsins í sveitinni og þóttu mikið um, þar sem þau eru frá Montana og ekki mikill sjór þar. Fyrir þá sem voru með okkur þennan dag, takk fyrir okkur og sjáumst hress síðar.
Laugardagur, 7. júlí 2007
JóiKef 35 ára í dag, til hamingju Jói!
Jóikef náði þeim merkilega áfanga í dag að verða 35 ára, hvernig sem hann fór að því... Viljum við, hjólafjölskyldan úr Hafnarfirði, óska honum innilega til hamingju með daginn og óskum honum jafnframt velfarnaðar í framtíðinni. JóiKef! Þú rokkar.....
Ég tók nokkrar skemmtilegar myndir frá því í gær þar sem bæði JóiKef og Binni Morgan eru að stökkva með stæl, en þar sem ég er staddur á flugstöðinni í Keflavík að þá komast þessar myndir ekki í loftið fyrr en seint í kvöld eða jafnvel ekki fyrr en í fyrramálið. Á meðan ítrekum við hér, Brjálaða Bína, Sveppagreifinn, Margrét og Óliver árnaðaróskir okkar til JóaKef.
Fyrir þá sem munu taka þátt í gleðskapnum í kvöld að þá segjum við bara, "góða skemmtun!"
Bloggvinir
Tenglar
Motocross síður
Ýmsir tenglar yfir motocross og keppnir
- www.ridingiceland.is Hjólaleiga fyrir innlenda sem og erlenda ferðamenn sem hafa áhuga að á kynnast landinu á hjóli. Endilega að kíkja á síðuna hjá honum Hafsteini
- Heimasíða VÍK Aðalsíðan í bænum. Upplýsingar um keppni, ástand brauta o.fl.
- KKA Akstursíþróttafélag Heimasíða KKA á Akureyri, margt fróðlegt
- RacerXill.com Ágætis síða um motorcross, keppnri og fleira
- AMA Motocross Official heimasíða AMA motocross
- FMX - freestyle Góð síða með upplýsingum um freestyle motocross
- Motocross Action Magazine Vefur útgáfanda Motocross Action Magzine
- TransWorld Motocross Ýmis fróðleikur um motocross og keppnir í gangi
- Dirtbikerider Heimasíða útgefanda DirtBikeRider, margt fróðlegt um motocross og enduro
- Dirtbike Off-Road Upplýsingar um hjól, hjólatest o.fl.
- Supercross.cc Mjög góð síða með upplýsingar um Supercross, miða á netinu o.fl.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar