Skreppitúr til Akureyrar

Við fjölskyldan tókum þá skyndiákvörðun að brenna norður seint um mánudagskvöldið, til að keyra í brautinni á Akureyri.  Þetta var einn af þessu frægu skyndihugdettum sem við eigum til að fá og framkvæmum bara sisvona.  Við vorum komin norður um þrjúleytið um nóttina og dröttuðumst inn á herbergi á Hótel KEA.  Liðið var svo ræst um hálftíu, til að ná sér í morgunmat á hótelinu áður en haldið skyldi í braut.  En fyrst urðum við að sjálfsögðu að koma við hjá henni Helgu og skoða nýja vinnustaðinn hennar, fjárfestingarbankann Saga bank.  Var skemmtilegt að sjá hvað búið var að gera við gamla barnaskólann en samt haldið stíft í upprunann.

Óliver að sýna taktaBrautin á Akureyri var illa farin og mjög grýtt.  Við létum það ekki á okkur fá og sóttum hrífur og skóflur og tókum til við að hreinsa stærstu grjótin.  Það tók okkur tæpa þrjá klukkutíma.  Eftir það var brautin þolanleg fyrir utan hvað hún var þurr blessunin, sem þýddi að það var geysilega mikið ryk á svæðinu eftir hvern ökumann sem keyrði um.  Þrátt fyrir þessa annmarka að þá finnst mér þessi braut mjög skemmtileg og er alveg þess virði að brenna norður til að fá tilbreytingu frá brautunum á suðvesturhorninu.  Púkabrautin er líka spennandi kostur fyrir yngri iðkendur og virðist henni vera haldið vel við.  Alla vega voru þeir að vökva hana þegar við komum og var því í fyrirtaks ástandi. 

Við dóluðum þarna fram eftir degi og Margrét vildi endilega taka þátt í kvennaæfingu hjá KKA seinna um kvöldið, sem hún gerði.  Óliver tók þátt í púkaæfingu með púkunum á Akureyri.  Helga kom og lét ljós sitt skína á "gamla" hjólinu, en var að vonast til að koma á nýju Hondunni 150cc 4T.  En eitthvað hefur gengið erfiðlega að koma því til landsins.  Við lögðum af stað frá Akureyri upp úr 10 um kvöldið og vorum orðin ansi framlág þegar við skriðum heima að verða þrjú um nóttina.  Þrátt fyrir það að þá vorum við mjög sátt við ferðina og skemmtum okkur vel.  Hlakka til að koma norður um verslunarmannahelgina vegna 3 umferðar Íslandsmótsins sem verður þar.

Eitt mega þeir norðanmenn eiga, að þeir eru að veita yngstu iðkendunum gífurlega athygli.  Við urðum vitni af æfingu hjá þeim og þar var varla þverfótað fyrir foreldrum og þar fyrir utan að þá voru einstaklingar að stýra hvernig púkarnir keyrðu inn í brautina og að sjálfsögðu með tilheyrandi tilsögn um það hvernig best væri að keyra brautina.  Þarna sýndu þeir strax púkunum að fara þarf eftir reglum og stýringum í braut ásamt því að fá góða tilsögn sem er gulls ígildi.  Var virkilega gaman að sjá þetta og ekki verra að sonur okkur var meira en velkominn í þennan hóp.  Þannig að ég segi bara að lokum, takk fyrir okkur og sjáumst von bráðar...Smile 

Við tókum einhverjar myndir frá þessari ferð og byrja ég að henda þeim inn á morgun.


Allar myndir frá Ólafsvík komnar inn á vefinn

Jæja, þá er því loksins afstaðið að koma helstu myndum á vefinn og var þetta ekki neitt smámál.  Samtals eru þetta um 388 myndir sem hlutu náð fyrir augum dómarans og komust á vefinn.  Ég þarf að fara að finna mér upp betra kerfi til að hlaða upp þessum myndum, en ég get að hámarki sett upp 10 í einu.  Þetta er alveg meingallað og þýðir að svona verk eins og þetta tekur marga klukkutíma.

Úrvinda...:o)Skítt með það, ég vona að flestir finni þarna myndir við sitt hæfi, en einungis 23% af þeim myndum sem ég tók fóru á vefinn.  En til gamans er hér góð mynd af Kela vini mínum sem var orðin ansi framlágur í lok dagsins þegar við hittum vinin á Hyrnunni í Borgarnesi.  Bein slóðin á myndirnar er: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Olafsvik30juni2007/ 


2 umferð í motocrossi í Ólafsvík

Þá er afstaðið 2 umferð til Íslandsmeistara sem fór fram í Ólafsvík og er óhætt að segja að þetta hafi verið mjög skemmtilegt mót.  Ég veit ekki hvað sumir röfla yfir þessari braut en mér persónulega, ásamt konu og dóttir, finnst þessi braut með þeim skemmtilegri.  Í raun finnst mér engin braut leiðinleg, þær eru allar misjafnar eins og við mennirnir eru margir og verður að taka þeim sem slíkum.  En keppnin var skemmtileg í alla staði og spennandi og eiga aðstandendur keppninnar þakkir fyrir gott mót.  Sérstaklega var það áhugvart að sjá að þeir létu laga ákveðna kafla brautarinnar á milli moto-a þar sem hún þótti ógna öryggi keppenda.  Er það frábært framtak og mættu fleiri taka það til sín sem halda svona mót.

IMG_0096Mæðgunum gekk svona allt í lagi.  Björk (Brjálaða Bína) var mjög sátt við sinn dag þrátt fyrir að ræsingarteygjan hafði flækst í framdekkinu hjá henni í fyrsta moto-inu sem gerðu það að verkum að hún var stopp í einn og hálfan hring á meðan verið var að skera úr teygjuna svo hún gæti haldið áfram og stukku þar tveir vaskir menn sem fyrir lukku voru með vasahníf í vasanum.  Var þar fremstur í flokki Fíi og einn annars sem ég kann ekki deili á og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.  Björk endaði eftir daginn í 10 sæti í það heila þrátt fyrir þetta atvik og verður það að teljast gott.  Margréti gekk ekki eins vel og síðast og endaði í 6 sæti í 85cc riðli.  En hún varð  fyrir því óhappi að lenda í slæmu "crash-i" ásamt Berglindi í Hondaliðinu og festist hún undir tveimur hjólum.  Annar fóturinn á henni er allur stokkbólginn og hnéð nánast tvöfalt.  Þrátt fyrir þetta atvik hélt hún áfram og kláraði seinna moto-ið með glans. 

Karen #132 sigraði Opna kvennaflokkinn og Bryndís #780 85cc kvenna.  Það er virkilega gaman að fylgjast með þessum tveimur þar sem um mjög hraða og góða ökumenn er að ræða.  Í 85cc drengja var Eyþór #899 í algjörum sérflokki og sýnir þessi ungi ökumaður mikið öryggi og flottan akstur.  Ég sé hreinlega engan sem virkilega getur ógnað honum í sumar að óbreyttu.  En eftir þau mót sem ég hef séð í sumar er ljóst að 150cc 4T hjólið frá Honda er að sýna fádæma yfirburði í þessum flokki og eiga 85cc 2T keppendur nánast enga möguleika í þetta nýja hjól.  Skiptir þá engu máli um hvaða tegund er að ræða.  Ásgeir #277 átti mjög góðan dag og loksins small allt saman hjá honum.  Sýndi hann geysilega flottan akstur og var yfirburðamaður í sínum flokki í þessari keppni.  Þarna er á ferðinni geysilega sterkur ökumaður sem hefur fengið viðurnefnið hjá mér "Kubburinn" þar sem þetta er samanrekinn skratti...Smile  Í MX1 sigraði Einar #4.  Einar er virkilega seigur og hefur í raun komið mér svolítið á óvart hvað hann er að stríða sér yngri strákum í þessu sporti.  En Einar hefur virkilega sýnt og sannað að lengi lifir í gömlum glæðum.

Eins og sagði í upphafi að þá var þetta mjög skemmtileg keppni og var fjölskyldan mjög sátt við daginn þrátt fyrir óhapp Margrét.  Við viljum óska öllum þeim sem náðu á verðlaunapall til hamingju með árangurinn.  Ég tók eitthvað vel á annað þúsund myndir og munu þær sökum plássleysis ekki lenda allar á þessari síðu.  Ég mun byrja að seta inn myndir í lok dags en sökum fjöldans að þá getur þetta tekið töluverðan tíma.  Vonast ég til að þetta verði vel á annað hundruð myndir þegar upp er staðið sem fara á þennan vef.  Bein slóð á þetta albúm er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/Olafsvik30juni2007/      


Þorlákshöfn

Við brugðum okkur í Þorlákshöfn í dag, þ.e. mæðgurnar tóku þátt í æfingu.  Gekk þetta bara ágætlega fyrir utan að hjólið hennar Bjarkar er bilað en Tedda var svo vænn að lána henni sitt hjól og fór á mitt hjól í staðin.  Það er svolítill munur á 125cc 2T Vs. 250cc 4T í sandi og var hún orðin ansi þreytt blessunin að æfingu lokinni.  Kann ég henni bestu þakkir fyrir.

Brautin er orðin ansi illa farin og ljóst er að erfiðlega gengur að halda henni við þessa dagana.  Standa heilu klettarnir upp úr henni á köflum og er hún að margra mati hreinlega hættuleg.  Þetta vandamál leynist víðar, en Sólbrekka er einn af þeim brautum sem illa hefur gengið að viðhalda í sumar og á hún við samskonar vandamál að stríða.  Þ.e. að berir klettar standa orðið upp úr brautunum sem hreinlega er ekkert grín ef einhver verður fyrir því óhappi að detta á þá á fleygiferð.  Og ótrúlegt en satt að þá eru brautirnar hér á suðvesturhorninu farnar að líða fyrir þurrkinn sem verið hefur síðustu daga og er rykið mjög mikið.

IMG_0048aHvað sem því liður að þá var þetta hin ágætasti dagur.  Æfingarnar gengu vel og voru allir sáttir í lok dags, nema kannski ég þar sem eina ferðina enn er ég eingöngu áhorfandi...Smile  Á heimleiðinni var komið við hjá tengdó sem er á leiðinni út og systir frúarinnar, sem gerðu það að verkum að ég náði ekki að skrá mæðgurnar inn á tíma fyrir hækkun skráningargjalds.  Bagalegt það!  En þar sem hjólið hennar Bjarkar var bilað og óvíst þar til seinnipartinn í dag hvort það næðist að laga það fyrir helgi að þá hafði ég beðið með skráninguna.  You win some, and you lose some... 

Tók nokkrar flottar myndir af þeim sem voru í brautinni á þessum tíma og byrja ég að drita þeim inn á netið á morgun.  Hér er bein slóð á myndirnar: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/THorlakshofn_juni/


Frábær mæting í púkahitting á Álfsnesi

Það var vægast sagt frábær mæting í dag á Álfsnesi þegar að yngstu iðkendur sportinsins mættust til að sýna sig og sjá aðra.  Ekki er ég með alveg á hreinu hvað margir skráðu sig og síðan mættu, en gæti í fljótu bragði skotið á um það bil 50 púkastráka og stelpur.  Mikil eftirvænting var í hópnum þegar öllum þessum krökkum var safnað saman á einn stað og áttu sumir mjög erfitt með að bíða þegar yngstu aldurshópurinn fékk að fara í brautina.    Hjóluðu þau öll með glæsibrag og ljóst er að ef heldur áfram sem horfir á þá er framtíðin björt í þessu sporti hér á landi.  65cc hjólin og lengra komnir hjóluðu svo á eftir þeim yngstu og sýndu svo sannarlega frábæra takta.  Greinilegt að við, eldra fólkið, þurfum að halda okkur öllum við til að halda eitthvað í þessa skemmtilegu ökumenn.  Púkahittingur

Þegar allir voru búnir að fá útrás í braut, var hóað saman í grillveislu og verðlaunaafhendingu.  Gunni stóð sig eins og hetja á grillinu, en Björk og fleiri höfðu náð að safna saman ýmsu og þar á meðal til að bíta og brenna sem gerðu daginn mun skemmtilegri.  Myndaðist mjög skemmtileg stemming á meðan verðlaunaafhending fór fram og ljóst er að bæði foreldrar og þessu unga fólki þyrstir í að koma saman til að eiga góðan dag. 

Alla vega, að þeim sem stóðu að þessu eiga miklar þakkir fyrir að hafa skapað skemmtilegt kvöld fyrir alla hlutaðeigandi.  Takk!  Ég mun reyna að byrja hlaða upp myndum á morgun, en maður hefur nú bara ekki orðið undan í þessu þar sem það er orðið svo mikið um að vera...Smile   Bein slóð á myndaalbúmið er: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Pukahittingur/


Viva Las Vegas

Jæja, þá er maður loksins komin heima eftir ferð til Las Vegas þar sem ég fór á ráðstefnu.  Ekki tóku rólegheitin við eftir heimkomu þar sem restin af fjölskyldunni hafði ráðgert að fara til Ólafsvíkur að prófa brautina fyrir lokun og var haldið af stað aðeins 2 tímum eftir heimkomu mína.  En fyrir þá sem ekki vita, að þá verður næsta motocrossmót til Íslandsmeistara haldið þar næst komandi laugardag.  Þannig að eitt ferðalagið tók við af öðru.  Veðrið lofaði góðu, en það var svona klassískt gluggaveður.  Sól en ekki heitt nema í skjóli fyrir vindnæðingi.  Annað var nú upp á teningnum á milli Ólafsvíkur og Rifs.  En þar var nánast blankalogn og brakandi blíða.  Dagurinn lofaði góðu.

Ræsing æfðEr við komum voru nokkrir fyrir á svæðinu og höfðu greinilega verið að taka hressilega á því.  Allir voru ansi spenntir þar sem engin okkar hafði nokkurn tímann keyrt þessa braut.  Ég, persónulega, hef oft verið betur upplagður enda komin með hálfgerða slagsíðu eftir hitt ferðalagið.  Brautin, var að mér fannst, mjög skemmtileg og er virkilega gaman að hjóla í henni.  Aðrir fjölskyldumeðlimir voru á sama máli, nema sá minnsti þar sem það vantaði alveg púkabraut á svæðið.  En vonandi verður unninn bragabót á því á næstunni.  Björk og Heiða fíluðu sig í ræmur.  Margrét þurfti að fara í vinnu og gat því miður ekki notið alls dagsins með okkur. 

Þegar upp var staðið að þá var þetta hin allra skemmtilegasti dagur þrátt fyrir fyrrgreinda ferðaþreytu.  Við vorum ekki komin heim fyrr en upp úr níuleytið og þá tóku við hefðbundin þrif.  Ég ætla nú að reyna að henda einhverjum myndum inn á bloggið á morgun frá þessari ferð en brautinni hefur verið lokað fram að keppni.  Hvet ég alla sem hafa áhuga að mæta og annað hvort taka þátt, eða horfa á spennandi keppni.  


Bréf til fréttastofu Stöðvar 2 vegna umfjöllun um reglugerðabreytingu

Jæja, þá koma að því að maður yrði nú að senda línu út af einni fréttinni sem var að birtast hjá ykkur og snýr að þeim hópi fólks og foreldra sem stunda torfæruakstur.  Aðalræðuefni dagsins, jú, forvarnarfulltrúar bölsóttast út í okkur vitleysingana fyrir að leyfa smábörnum og óþroska krökkum að aka slíkum hjólum.  Einar „forvarnarfulltrúi Íslands“ og meira segja umferðarstofa máttu vart halda vatni yfir þeim stór tíðindum að ráðherra, eins gáfaðir og þeir eru, skyldu leyfa þessu umræddu aldursmörk.  Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.  Umferðarstofa setti að sjálfsögðu alla bifhjólaökumenn í einn hatt, eins og venja þeirra er.  „Forvarnarfulltrúi Íslands“ tilgreindi ökutæki sem náðu meira en 100 km. hraða á klst. og væri leyfilegt fyrir krakka allt niður í 6 ára.  Þá tók nú steininn úr hjá mér.  Hvaða vitiborna foreldri setti 6 ára barn á hjól sem næði meira en 100 km. hraða?

Við miðum okkur ansi mikið við hin löndin í kringum okkur og þá sérstaklega hin Norðurlöndin.  Í hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu gilda sömu aldurstakmörk og verið var að samþykkja hér.  Í Bretlandi eru keppnir fyrir krakka niður í 6 ára á motocrosshjólum.  En hvaða máli skiptir það, þetta er allt saman tómir vitleysingar í kringum okkur.  Nei, við erum svo afskaplega skynsöm hér í umferðinni að það hálfa væri nóg.  T.d. kaupum við þessu flottu fjallahjól fyrir óþroskuðu börnin okkar, splæsum eitt stykki á hjálm á kollinn og kannski hjálpardekk ef barnið á erfitt með jafnvægi og svo eru þau tilbúin í umferðina á Íslandi.  Já, þessu óþroskuðu grey fá það í gjöf frá okkur að við hlaupum með þeim nokkrar ferðir til að athuga hvort þau nái að standa út götuna og ef svo er, þá eru þau útskrifuð í umferðaskóla lífsins.  Við fullorðna fólkið tökum aftur upp á því sem við gerum best og það er að láta þau afskiptalaus.  Skítt með það þó að stór trukkur í nágrenninu þar sem verið er að byggja aki um nágrannagötur á allt að 80 km. hraða á klst. fulllestaður.  Þetta er nú allur umferðarskóli lífsins sem þau fá áður en þau fara út í hina stóru umferð.  Hvar eru olnbogahlífarnar, hnéhlífarnar, brjóstvörnin, hryggvörnin, nýrnabeltið, gleraugun o.fl. o.fl.?  Þetta köllum við ekki hina íslensku rúllettu og þetta er allt í lagi þar sem þau eru á götum í næsta nágrenni og við getum því fylgst svo rosalega vel með þeim...

Til gamans má geta, fyrir þá sem vilja skoða hlutina í réttu samhengi, að meðalhraði fullvaxins keppnismanns í motocrossi er um það bil 40 km. hraði á klst.  Vissulega geta stóru motocrosshjólin fyrir fullorðna náð allt að 100 km. hraða, en brautirnar eru byggðar með það í huga að þetta sé tæknisport en ekki hraðakstursíþrótt.  Ef svo væri, að þá væri þetta bara bein lína og hraðinn í samræmi við það.  Hver er þá eiginlega munurinn á því að setja krakka á reiðhjól og torfæruhjól?  Jú hann er eftirfarandi og ekki endilega í þessari röð:

  1. Öryggisbúnaður.  Iðkendur torfæruhjóla nota allan þann hlífðarbúnað sem til er, sbr. öryggishjálm, hálskraga, öryggisgleraugu, brynjur yfir axlir, brjóst og hrygg, olnbogahlífar, hnéhlífar, nýrnabelti, sérstaka öryggisskó
  2. Hjól yngstu iðkenda eru flest þannig úr garði gerð að foreldri getur stillt hraðan á þeim, þannig að þau nái ekki nema ákveðnum hármarkshraða miðað við getu, hefur þú séð þann búnað á reiðhjóli?
  3. Iðkendur eru alltaf í fylgd með fullorðnum, sem þýðir að þau eru ALLTAF að keyra UNDIR eftirliti forráðamanna.
  4. Brautirnar eru fjarri umferð annarra og stærri ökutækja eins og bifreiða
  5. Jarðvegurinn í brautinni er mýkri viðkomu heldur en malbikið og oft er um sand- og moldarbrautir um að ræða
  6. Fartækið er vélknúið og gengur fyrir eldsneyti
  7. Skemmtilegur félagsskapur og allir hjálpa öllum.  Ekki veitir af í nútímaheimi

Eins og þið sjáið að þá er töluverður munur á t.d. reiðhjóli og torfæruhjóli.  Ég hef tekið fram úr krökkum á reiðhjóli án nokkurs hlífðarbúnaður niður brekku á rúmlega 50 km. hraða á klst.   Ekkert er hættulaust, en það þýðir samt ekki að við hættum að lifa.  Ég hef lent í nokkrum bifreiðarslysum og þar á meðal hryggbrotnað, það þýðir samt ekki að ég sé hættur að nota bíl.  Ég hef ökklabrotnað í fótbolta, það þýðir ekki að ég banna syni mínum að spila fótbolta og ég geri það ennþá sjálfur.  Ég var keyrður niður á reiðhjóli 5 ára gamall og þá voru engir hjálmar (kannski þess vegna sem maður er svona klikk), það þýðir samt ekki að engin reiðhjól séu til á heimilinu mínu.  Flest dauðsföll eiga sér stað í svefni, við hættum samt ekkert að sofa er það?  Ég á bróðir sem slasaðist mjög illa á skellinöðru 15 ára gamall og lá fyrir dauðanum, á ég þá ekki að berjast gegn notkun skellinaðra þegar hann var í 100% rétti og var keyrður niður þar sem engin virðing var borin fyrir honum í umferðinni?

Ég og mín fjölskylda höfum stundað torfæruakstur í tæpt ár.  Sonur minn er 8 ára og dóttir 14.  Ég hef ekki eytt eins miklum tíma með fjölskyldunni frá því að hún varð til, en við förum nánast daglega að hjóla á „VIÐURKENNDU“ svæði.  Ekki á götum borgarinnar, eins og því miður sumir foreldar virðast leyfa sínum börnum að gera.  Konan mín er fertug, ekki segja að ég hafi upplýst ykkur um það, og byrjaði að hjóla í janúar.  Hún er að keppa í motocrossi í dag í opnum kvennaflokki. 

Ef þið hefðuð áhuga á því að þá myndi ég gjarnan vilja bjóða ykkur að fylgjast með syni mínum og dóttir hjóla á morgun eða laugardag.  Vonandi eyðir það þeim grillum að börnin okkar, þið vitið þessi óþroskuðu, geti ekki valdið einu né neinu og eiga helst að geyma í krukku upp á skáp þar til þau eru orðin fullorðin.  En hvenær verða þau þá fullorðin?  Já, það er miklu betra að láta þau hanga hálf hreyfingarlaus og nánast lífvana yfir MSN-inu og tölvuleikjum heldur en að hvetja þau til að takast á við lífið sjálft og áskoranir. 

Ykkur er velkomið að hafa samband við mig út af þessu bréfi, en mér þætti afskaplega vænt um að þið sýnduð þessu nú aukin skilning ef þið hafið nennt að bögglast í gegnum þetta bréf.  Ég tala hér sem einn einstaklingur sem á fjölskyldu þar sem allir eru að hjóla.

Virðingarfyllst, Sverrir Jónsson og hjólafjölskylda

Bolalda Vs. Álfsnes

Það var mikil tilhlökkun hjá fjölskyldunni þar sem okkur hafði borist til eyrna að Bolalda hafði verið opnuð í gær eftir gagngert viðhald.  Allur á einu máli um það að fara upp eftir og prófa brautina.  Fréttum af því að brautin hefði verið geðveik í gær.  En þvílík vonbrigði þegar upp eftir var komið.  Það var greinilegt á öllu að ásókn manna í hana í gærkvöldi hefði gert það að verkum að hún var orðin ansi illa farin á köflum og bar hún orðið gælunafnið með rentu, þ.e. "Grjótalda".  Enda er mér sagt að hátt í 70-80 manns hafi verið á svæðinu í gær og er það gífurlegt álag.  Þannig að við sáum okkur sæng útbreidda og pökkuðum saman og fórum á Álfsnesið.  Sem betur fer er vinnukvöld annað kvöld upp í Bolöldu og greinilegt að ekki veitir af eftir hamaganginn síðustu daga.   

Álfsnesið var með ágætasta móti og var ég að keyra þessa braut í fyrsta sinn.  Að vísu voru nokkrir stórir steinar sem voru hér og þar í brautina, en eru alls staðar einhverjir steinar?  Skvísurnar voru hæst ánægðar, en fannst hún samt skemmtilegri á laugardaginn í sjálfri keppninni.  Eini gallinn við Álfsnesið er að þar koma mjög fáir með púkana sína, þannig að Óliver er að fá mjög lítin félagsskap á Álfsnessvæðinu þegar hann er að keyra.  Þetta er að mörgu leyti mjög skrítið þar sem moldarbrautin fyrir 85cc og þaðan af minni er með ágætasta móti og spurning hvort að nýliðar í greininni geri sér grein fyrir aðstöðunni sem er á svæðinu.  Að vísu er 85cc brautin í Bolöldu meira spennandi að mati Ólivers, en tilbreytingin er ágæt það skortir bara félagsskapinn.

Þannig að eftir daginn í dag, að þá hafði Álfsnes vinninginn.  Vonandi koma sem flestir á morgun og taka til hendinni upp í Bolöldu.  Þessi vinna er á hendi allt of fárra og fleiri hendur koma meiru í verk.  Sjáumst í Bolöldu á morgun, en Álfsnes rokkar...Smile


Umfjöllun í fréttum Stöðvar 2 í kvöld

Það verður eitthvað fjallað um keppnina í gær í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld og skora ég á alla sem hafa tíma til að horfa á.  En gaman verður að sjá fyrstu umfjöllun stöðvarinnar um þetta sport í íþróttapakkanum þeirra þetta árið.

Álfsnes, Álfsnes, Álfsnes.... Bara gaman

Það rættist heldur betur úr þessari keppni og deginum sem slíkum, en samtals voru rúmlega 130 keppendur skráðir til leiks og þar af 25 kvenkyns sem sýnir geysilegan vöxt hjá þeim flokki einum og sér.  Hafa orðið gífurlegar framfarir hjá kvenökumönnunum sem sýnir sig að þegar 2 af 85cc stelpunum ákváðu að taka þátt með 85cc drengjum að þá lentu þær báðar í topp 10.  Yfir 50 keppendur voru skráðir til leiks í MX flokkunum og 34 keppendur voru skráðir í 125cc sem var eiginlega einn skemmtilegasti flokkurinn að horfa á.  Er ekki dómbær á 85cc drengja þar sem ég var alltaf að þrífa og undirbúa hjólin á hjá skvísunum þegar þeirra moto fóru fram og því miður piltar, að þá á ég af þeim sökum nánast engar myndir af ykkur í þetta skiptið.  En þar voru 22 keppendur skráðir og Eyþór sýndi það að sigur hans á Akureyri var ekki tilviljun, heldur sökum þess að hann er einn allra hraðasti ökumaður landsins í þessum flokki.

Í kvennaflokki bar það einna hæst að Karen hafði það loksins af að sigra Álfsnes keppnina, en þetta var eina keppnin sem hún hafði ekki ennþá náð að sigra í sínum flokki.  Margrét gekk vel og lenti í 3 sæti í heildina í 85cc kvenna, en er í 2 sæti ef tekin er keppnin til Íslandsmeistaratitils þar sem breski kvenökumaðurinn Stacey telur ekki með.  En Stacey sigraði 85cc kvenna.  Björk gekk þokkalega, var að keyra ágætlega en lenti svo í einhverjum smá ævintýrum sem drógu hana niður.  En hún lifði keppnina og var ekki síðust.  Tedda var kosin sunddrottning mánaðarins og mun myndir af henni í nýju bikinnilínunni frá O'Neal birtast á dagatölum landsmanna næstu vikurnar...Grin   En hún átti atriði dagsins þegar hún drekkti hjólinu og nánast sér í einum drullupollinum á svæðinu.  Öllu máli skiptir að hún kom hlæjandi út úr þessu og án skaða.

Anítu hefur verið tíðrætt um Björk, þ.e. að hún æði fyrir allt og alla og þá sérstaklega í startinu.  Eitthvað fór fyrir brjóstið á henni æfingar sem þær voru saman í á Selfossi síðasta þriðjudag í tómum leðjuslag þar sem eitt skiptið skrikaði afturendi Bjarkar með þeim afleiðingum að framdekk Signýjar lenti á afturdekki Bjarkar og við það datt hún.  Ég vill benda þessari ungu konu á að svona er þetta í þessari íþrótt og mín reynsla er sú að sá sem er á undan á línuna, en ekki öfugt.  Það þýðir að sá sem er fyrir aftan á að passa sig og á auðveldara með það.  En til gamans má geta að ég á myndasyrpu þar sem Aníta gerir það nákvæmlega sama í seinna motoinu sem hún ásakaði Björk fyrir sem gerir það að verkum að Hekla þarf að forðast árekstur við Anítu og keyrir því á Margréti sem var heppinn að ná að standa.  En þessi árekstur  Heklu við Margréti gerði það að verkum að Margrét kom illa út úr síðasta starti og þurfti að færa sig sem nemur 3 keppendum í línu með við staðsetningu í rásspóli.  Ég ætla ekkert að tíunda það hér, en segi bara svona er þetta í þessum keppnum og þeir sem geta ekki lifað með því eiga að hætta í þessari íþrótt...   

Jæja, nóg komið um þessa vitleysu.  Ég mun byrja að setja inn myndir á netið á eftir en samtals voru þetta hátt í 600 myndir sem ég tók.  Bein slóð á netalbúmið er: http://sveppagreifinn.blog.is/album/Alfsnes/.  Að lokum vill ég og mín fjölskylda þakka fyrir góðan dag og þá sérstaklega vill ég þakka Kristínu og Erni fyrir ótakmarkaðan aðgang að vatni o.fl...Smile  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sverrir Jónsson
Sverrir Jónsson
Ég heiti Sverrir Jónsson.  Helsta áhugamál mín eru motocross, veiðar, útivist o.fl.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband