Fimmtudagur, 7. júní 2007
Keppnin á Álfsnesi um helgina
Þá er komið að fyrsta mótinu sem gildir til Íslandsmeistartitils í motocrossi og eru 92 keppendur skráðir til leiks þegar þetta er skrifað. Að sjálfsögðu ríkir ákveðin spenna og eftirvænting hjá þeim sem eru í þessu sporti og aðstandendum þeirra. En því miður hefur veðurguðinn eitthvað verið að setja sig upp á móti keppnishaldi á Álfsnesi síðustu ár og virðist það sama upp á teninginn þetta árið. Að vísu virðast þær lagfæringar sem farið var í til að drena brautina betur hafa skilað árangri og þeir sem voru að vinna í brautinni í gær sögðu að hann væri í ágætis ástandi, yfirborðsbleyta en þurr undir. Vonandi verður ekki mikið meira úrhelli þannig að hægt verði að halda þetta með sómasamlegum hætti. En sumir þrífast að vísu á þessu drullumalli, þ.e. þeim mun meiri drulla, því skemmtilegra að þeirra mati.
Það sem hefur komið mér á óvart er að ég bjóst við meiri þátttöku heldur núverandi skráning gefur til kynna. Miðað við þann gífurlega uppgang sem er í sportinu og þann fjölda liða sem mynduð hafa verið fyrir tímabilið að þá hefði maður mátt ætla að rúmlega 120-130 keppendur myndi öllu jafna vera skráðir til keppni. Eitthvað er um afföll vegna meiðsla og sakna ég þar strax hluta af Team Nitro Kawasaki liðsins. En mér finnst líka vanta einstaklinga sem ég taldi að gengu heilir til skógar og gætu tekið þátt. Annars hef ég ekkert með að rífa mig yfir hverjir taka þátt og hverjir ekki þar sem ég er ekki keppa í greininni. En samt, ég hefði viljað sjá fleiri. Kannski hefur sú veðurspá sem er fyrirliggjandi svo neikvæð áhrif að menn ætli að sitja hjá. Ég tel að í ljósi þess hversu hörð samkeppnin er orðin að allt óþarfa brotthvarf gerðu endanlega úr sögunni möguleika viðkomandi á þeim árangri sem hann/hún vonast eftir. Þannig að fyrir þá sem eiga eftir að skrá sig og eru eitthvað að víla fyrir sér spánna, að þá hvet ég þá til að taka endilega þátt í þessari keppni. Veðurspá er nákvæmlega það sem nafnið gefur til kynna, SPÁ. Enda veðurfræðingar eina af fáum stéttum landsins sem heldur starfinu án tillit til þess hvort þeir hafa rétt fyrir sér eða ekki...
Mánudagur, 4. júní 2007
MSÍ búið að samþykkja skiptingu í kvennaflokki og 150cc 4T sé löglegt í 85cc flokki
Ég var leiðréttur í dag þar sem MSÍ er búið að samþykkja að kvennaflokki sé skipt eftir aldri og stærð. Skv. reglugerð um keppni í motocrossi, liður 2.2.6. að þá skal kvennaflokki skipt upp í tvo flokka eftir aldrei og vélarstærð. 85cc kvennaflokkur og Opin kvennaflokkur, verðlauna skal fyrir þrjú efstu sætin í báðum flokkum. Þessir flokkar verða keyrðir saman og þar verður keppt í tveimur riðlum, sem keppt verður í til Íslandsmeistara. Í 85cc kvennaflokki verður miðað við hjól sem eru 85cc tvígengis og 150cc fjórgengis og keppendur mega ekki vera eldri en á 15 ári. Í opnum kvennaflokki er aldurstakmark ekki yngri en 14 ára og opin hjólastærð.
Það er ánægjulegt að vita til þess að búið sé að klára þetta mál og maður hefði átt að fara hægar í sakirnar að æsa sig upp úr skóm og sokkum eftir bikarkeppnina hjá KKA. En KKA vísaði sér til afsökunnar í MSÍ, þ.e. að MSÍ væri EKKI búið að samþykkja formlega þessa breytingu. Þannig að STELPUR! Nú takið þið á því í sumar...
Einnig er búið að samþykkja að 150cc 4T sé löglegt í 85cc flokki, sjá lið 2.2.5 og 2.2.7 hjá MSÍ um keppnisreglur í motocrossi. Nánar er hægt að sjá þetta í viðhenginu.
Mánudagur, 4. júní 2007
Bikarmót KKA með viðkomu á Sauðarkróki
Jæja, þá erum við nýskriðin heima eftir skemmtilega ferð til Akureyrar. En við fórum til að taka þátt í bikarmótinu sem haldið var þar ásamt fleirum úr Team Nitro Kawasaki. Veðrið var ágætt en það var þungbúið og bjóst maður við að það myndi byrja að rigna hvað úr hverju, en hann hékk þurr allan tímann. Brautin leit ágætlega út hjá þeim norðanmönnum eftir töluverðar breytingar, en hún var ennþá nokkuð grýtt. Hlutur sem lagast vonandi fyrir Íslandsmeistaramótið 4 ágúst. Það var þó til fyrirmyndar hjá þeim norðanmönnum að þeir bleyttu brautina vegna ryks og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar.
Keppnin gekk ágætlega þrátt fyrir eitthvað það allra furðulegasta start sem ég hef séð í móti í 85cc drengja og kvennaflokki. Ekkert skilti og rúmlega helmingur af liðinu óviðbúin þegar bandinu var sleppt mjög svo skyndilega. En þar sem um bikarmót var að ræða var startið látið gilda og ökumenn látnir klára motoið. Búið var að laga þetta í næstu ræsingu og gekk þetta þar með snurðulaust fyrir sig það sem eftir var. En engu síður setti blett á annars skemmtilegt mót.
Mæðgunum gekk ágætlega í mótinu en Margrét var í 4 sæti yfir heildina þrátt fyrir að hafa setið eftir í startinu í bæði skiptin. Fyrst vegna umrædds atviks en síðan þar sem seinna startið hennar gekk ekki upp. Björk var í 9 sæti yfir heildina og verður það bara að teljast mjög góður árangur af 40+ konu sem byrjaði að hjóla í janúar. Karen sigraði og Signý fylgdi henni fast á eftir. Eyþór sigraði í 85cc drengja og á eftir honum komu Bjarki og Kjartan.
Annars hefði þeir á Akureyri mátt verðlauna samkvæmt þeirri skiptingu sem MSÍ er búið að samþykkja. Kvennaflokkurinn var jú verðlaunaður sér, en ekki var gerður munur á hvort um 85cc hjól eða 125cc sé að ræða. Bara öllu grautað í eina skál og versgú, eitt stykki verðlaun á þrjár efstu það dugar fínt og haldið svo kjafti. En það var verðlaunað sérstaklega fyrir 85cc drengja þrátt fyrir að þeir skyldu eingöngu vera 7 talsins. Ekki vill ég hér með gera lítið úr drengjunum en margir þeirra eru að keyra hreint út sagt geðveikislega vel. Eyþór, Bjarki, Jón Bjarni, Kjartan og fleiri kandítatar í þeim flokki eru að sýna flottan akstur.
Á sunnudaginn fórum við ásamt Erni bróðir Bjarkar og fjölskyldu á Sauðarkrók til að prófa brautina þar. Brautin var mjög grýtt og leist okkur svona hæfilega á hana. En það þarf mikið að grjóthreinsa og/eða mylja það til að gera hana klára fyrir bikarmót sem á að fara fram í sumar. Lega brautarinnar er ágæt og óska ég þeim á Króknum og nágrenni til hamingju með hana.
Ég mun byrja að henda inn eitthvað af myndum en verður það eingöngu úr 85cc drengja og kvenna þar sem Sveinbjörn vinur minn tók úr MX hópnum. Einnig er það þar sem við erum að vinna að nýrri heimasíðu sem verður auglýst nánar síðar, en sú síða verður eingöngu tileinkuð motocrossi og enduro.
Föstudagur, 1. júní 2007
Bikarmót KKA á Akureyri
Mæðgurnar eru æstar að taka þátt í bikarmótinu sem verður á Akureyri á laugardaginn og erum við því á norðurleið. Það er búið að vera eitthvað smá vesen með skráningarkerfið þar sem það tók heila 2 daga að fá nöfn mæðgana birt á netinu um þátttöku. En nú er það komið og greinilegt að sífellt bætist í þann hóp sem ætlar að taka þátt. Vonandi sjáum við sem flesta þar sem veðurspáin fyrir norðan er með ágætum yfir helgina en ekki neitt sérstaklega spennandi fyrir suðvesturhornið.
Við gerum ráð fyrir að leggja af stað í fyrramálið áætlum að vera komin upp úr hádegi norður. Ég er nokkuð spenntur að sjá hvaða breytingar hafa verið gerðar á brautinni fyrir norðan og hlakka til að keyra hana. Sjáumst á Akureyri!
Mánudagur, 28. maí 2007
Klausturskeppninn, tær snilld!
Ja, hérna! Þá er fyrsta keppninn sem við heldri manna fólkið í fjölskyldunni tókum þátt í lokið og var bara gaman. Þessi keppni á Klaustri er hreint út sagt tær snilld og við skemmtum okkur konunglega. Takmarkinu var náð, en það var nú ekki merkilegra en að lifa af startið í aðalkeppninni og klára hring. Því miður var besti hringur dagsins hjá mér, sá hringur sem var dæmdur ógildur vegna mistaka og varð maður nett "pissed". En svona er þetta bara og maður var svo fljótur að gleyma þessu. En við Sveinbjörn, félagi minn, gætum verið sáttir þar sem við fengum báðir að ræsa...
Margrét stóð sig ágætlega í 85cc kvenna og lenti í 5 sæti. Var óheppin í startinu og keyrði fyrstu hringina af varúð þar sem hún þekkti ekki brautina. Björk, "Brjálaða Bína", varð fyrir því óláni að kertið gaf sig rétt fyrir startið. Þannig að hún var ekki sú fyrsta út úr því. En nú er hún búin að upplifa sitt fyrsta start í keppni og fannst henni bara geðveikt á Klaustri. En það sem mestu skiptir er að við komust klakklaust út úr þessu og allir áttu skemmtilegan dag. Það sama verður ekki sagt um Sveinbjörn félaga minn en hann rifbeinsbrotnaði og þurfti að hætta keppni.
Ég vill þakka samferðarfólki okkar fyrir mjög svo skemmtilega daga og var mjög góð stemming í hópnum. Einnig vill ég þakka Arne og Árna löggu sérstaklega þar sem þeir hlupu upp til handa og fóta þegar ég kom inn með brotið bretti, rammskakkt stýri og sært stolt og redduðu málunum... Annars var frábær stemming á Kawasaki svæðinu og lofar þetta góðu fyrir sumarið.
Ég mun byrja að troða inn einhverjum myndum í fyrramálið, en þangað til verða þeir sem eru hvað óþolinmóðastir að bíða. Bein slóð á Klaustursmyndirnar er: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Klaustur2007/. Við hjónin höfum sett stefnuna á parakeppnina á næsta ári ef aldur og heilsa leyfir... Sjáumst á klaustri 2008...
Fimmtudagur, 24. maí 2007
Klaustur, Klaustur og aftur Klaustur
Já, það snýst fátt annað um þessa dagana en keppnina á Klaustri. Gífurleg þátttaka er í ár og er nýtt met slegið hvað það varðar. En heildarfjöldi keppanda er rúmlega 500 manns og má búast við gífurlegri spennu þegar rúmlega 200 hjólum verða ræst út með tilheyrandi látum. Alla vega eru allir eins og hálfgerðir geðsjúklingar þessa dagana af stressi um að allt sé nú tilbúið og ýmislegt keypt sem annars hefði verið látið bíða...
Bíllinn er óðum að taka meiri og meiri breytingum og var sett undir hann dráttarbeisli í gær. Samt er ýmislegt eftir. Bíllinn á svo að fara í merkingu í fyrramálið og vonandi verða þeir nú nokkuð snöggir af þessu þar sem við erum háð brottför eftir því hvað þeir taka sér langan tíma til að merkja. Það er alla vega búið að tengja spennubreyti aftur í, þannig að við munum geta boðið upp á þokkalegasta kaffi.
Annars er það að frétta af heilsufari fjölskyldunnar að það er staðfest að Björk er með "bronkídis", en hún ætlar sér samt að fara austur. Sprautan í öxl hjá mér hefur ekki alveg gefið sig og eru ennþá töluverðir verkir + skert hreyfigeta. Ég ætla mér nú samt að reyna að keppa og verður gleypt einhver heljarinnar ósköp af verkjalyfjum áður en lagt verður í sjálfa keppnina. Krakkarnir eru sprækir að vanda og ekkert amar að þeim.
Að lokum, að þá hlakka ég bara til að sjá sem flesta á Klaustri og megum við öll njóta þess sem svona uppákoma hefur upp á að bjóða. Góða skemmtun...
Þriðjudagur, 22. maí 2007
Tæpur fyrir Klaustur
Það er orðið tvísýnt hvort ég geti tekið þátt í sjálfri keppninni á Klaustri næsta laugardag. Öxlin er langt frá því að vera orðin góð, þrátt fyrir sprautu í hana í gær. Nú gleypir maður bólgueyðandi eins og um sælgæti sé um að ræða í von um að það hjálpi til. Einnig er innra lærið vinstra megin illa marið þannig að maður er kannski ekki í kjörformi fyrir þessa keppni. Ég mun taka endanlega ákvörðun um þátttöku í fyrramálið. Ef svo fer að ég verð ekki tilbúinn fyrir keppni, að þá verður maður vonandi liðtækur á svæðinu á fjórhjóli.
Að öðru leyti gengur undirbúningur fyrir keppnina ágætlega og þá sérstaklega skvísurnar. Björk er að vísu með einhverja skítapest og fær hún úrskurðað úr því í dag hvort hún sé komin með "bronkídis". þannig að við hjónakornin höfum oft verið í betra ástandi heldur en í dag. Margrét er bara nokkuð spræk, en er að vinna nokkuð mikið í Snælandvideo á Reykjavíkurvegi. Við áætlum að fara austur á fimmtudaginn til að klára þann undirbúning sem eftir er fyrir keppnina.
Bíllinn er allur að koma til og verður hann settur í merkingar á morgun. Það er þó eitt og annað sem á eftir að setja í hann en í grunninn er hann tilbúinn til notkunar í svona svaðilfarir. Þessi bíll hefur komið mér skemmtilega á óvart og er tær snilld fyrir svona sport.
Föstudagur, 18. maí 2007
Klausturskeppnin
Jæja, þá er búið að úthluta rásnúmeri og ekki er það nú glæsilegt hjá mér og Sveinbirni félaga mínum. Við erum með rásnúmer 231 og erum sem sagt lengst í rassgati af öllum þeim keppendum sem við er að eiga. Spurning um að líma bara hvíta stafinn strax framan á hjólið til þess að komast í gegnum ræsinguna, þar sem við munum ekki til með að sjá mikið í upphafi. Sjálfsagt markast þessi úthlutun af því að Sveinbjörn skráði okkur inn á allra síðustu metrunum fyrir lokin á skráningu. Maður verður þá bara að taka þetta á góða skapinu og hugga sig við það að það sé afar ólíklegt að allir keppendur komi til með að taka fram úr manni.... Ekki það að maður gerði ráð fyrir að vera sigurvegari í ár og öll þátttakan snerist um að vera með.
Annars er maður komin með nettan fiðring og ekki laust við að maður sé pínu kvíðin. Aldrei tekið þátt í svona samkomu áður og að sögn þeirra sem hafa gert slíkt, að þá er þetta einstök tilfinning og þá sérstaklega ræsinginn. Nú er bara að vona að helv.... öxlin verði komin í lag fyrir keppnina, en ég er ennþá í töluverðu basli með hana og batinn fullhægur að mínu mati. Enda kannski ekki sá þolimóðasti í heimi þegar kemur að bið eftir líkamlegum bata.
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Vorið er komið og grundirnar gróa...
Loksins, loksins! Álfsnes opnaði í gær með pompi og prakt og á brautarnefnd Álfsnes heiður skilið fyrir að koma henni í gagnið. Hún hefur aldrei verið opnuð jafn snemma árinu og vonandi kunna hjólamenn að meta það. Þegar við komum að brautinni, að þá var stappað þarna af fólki og allir að fíla brautina í tætlur. Þetta var eins og þegar beljunum er sleppt út á vorin, allir á útopnu. Enda var mikið hlegið í pásum og sögur sagðar af sér og öðrum.
Björk var að keyra þessa braut í fyrsta sinn og á það einnig við Ingibjörg sem kom með okkur. Þær fíluðu þetta í ræmur. Margrét byrjaði að keppa þarna í fyrra í algjöru drullumalli, sem var hrein martröð fyrir byrjenda, og er hún óðum að taka brautina í sátt. Óliver var að keyra moldarbraut í fyrsta sinn á KX65 hjólinu sínu og fannst gaman, en kvartaði að vísu yfir pallaleysi í 85cc brautinni... Já, þau fá snemma skoðanir á hlutunum þessir grísir. Spurning hvort að hægt sé að gera hana meira ögrandi og loka betur fyrir þessa beinu kafla sem eru í brautinni, en iðulega endar það þannig að liðið keyrir meira og minna beint í stað þess að æfa beygjurnar sem eru til staðar. Aron #131 og Örn faðir hans komu á svæðið og átti Aron góðan dag í gær.
Ég tók nokkrar myndir af herlegheitunum og er bein slóð á albúmið: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/OpnunAlfsnes/
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Bolalda 13 maí
Við skröltum í Bolöldu síðastliðinn sunnudag þar sem maður er ekki í rónni nema að maður sé að hjóla þegar svona viðrar eins og verið hefur síðustu daga. Við vorum að vísu óvenju seint á ferð miðað við venjulega, eða upp úr hádegi. Flesta daga erum við komin á svæðið um 10 leytið. Veðrið var ágætt, ennþá norðanstrengur en ekkert sem við gátum ekki lifað við. Enn og aftur þakkaði maður fyrir að vera komin á sendibílinn þar sem við gátum klætt okkur inni í stað þess að standa hríðskjálfandi úti. Lokað var á alla aðstöðu í Bolöldu, þannig að maður var upp á guð og gaddinn.
Óliver fílaði sig í tætlur þennan dag og skemmti sér mjög vel í 85cc brautinni. Margrét var í enduroferðum með hinum og þessum og fannst gaman. Björk var að leika sér á stóra pallinum með strákunum. Ég hafði það af að leika "human canonball" og endaði með góðu crashi með þeim afleiðingum að hægri öxlin er helaum ásamt hægri síðunni. Einnig eru 2 puttar á hægri hendi eitthvað tregir til ásamt góðu mari á vinstra læri. Hjálmurinn er ónýtur eftir þetta, þannig að nú þarf maður að fá sér nýjan. Það er mesta furða hvað maður slapp vel miðað við hvernig þetta leit út á tímabili.
Jæja, þetta fylgir þessu sporti og maður verður bara að sætta sig við það að vera "búðingur".. Ég er að setja einhverjar myndir frá þessum degi á netið, en flestar eru þó af "minime" þar sem erfitt var að elta Margréti í sínum ferðum til að taka myndir. Bein slóð á þessar myndir er: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Bolalda13mai/
Bloggvinir
Tenglar
Motocross síður
Ýmsir tenglar yfir motocross og keppnir
- www.ridingiceland.is Hjólaleiga fyrir innlenda sem og erlenda ferðamenn sem hafa áhuga að á kynnast landinu á hjóli. Endilega að kíkja á síðuna hjá honum Hafsteini
- Heimasíða VÍK Aðalsíðan í bænum. Upplýsingar um keppni, ástand brauta o.fl.
- KKA Akstursíþróttafélag Heimasíða KKA á Akureyri, margt fróðlegt
- RacerXill.com Ágætis síða um motorcross, keppnri og fleira
- AMA Motocross Official heimasíða AMA motocross
- FMX - freestyle Góð síða með upplýsingum um freestyle motocross
- Motocross Action Magazine Vefur útgáfanda Motocross Action Magzine
- TransWorld Motocross Ýmis fróðleikur um motocross og keppnir í gangi
- Dirtbikerider Heimasíða útgefanda DirtBikeRider, margt fróðlegt um motocross og enduro
- Dirtbike Off-Road Upplýsingar um hjól, hjólatest o.fl.
- Supercross.cc Mjög góð síða með upplýsingar um Supercross, miða á netinu o.fl.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar