Íscross á Leirutjörn

Björk á ísnumFjölskyldan gerði tilraun til að stunda ísakstur í dag.  Ekki voru nú hjólin tilbúin til slíks aksturs og var farið um allt til að reyna að útvega dekk undir hjólin.  Það hafðist því miður ekki og því var ákveðið að fara til að sjá þá sem fyrir voru.  Hittum við þar Kela, Helga son hans og fleiri.  Ísinn var mjög þykkur og tóku sumir vel á því.  Brjálaða Bína fékk að taka í KTM 200cc hjólið hans Kela á ísnum og fannst geðveikt...Smile   Við náðum svo loks, eftir smá hjálp frá Halla í Motormax að nálgast eitt sett af negldum dekkjum hjá JHM Sport.  Nú vantar okkur einn gang í viðbót undir mitt hjól, en það verkefni liggur fyrir gagnvart karlinum í kvöld að skipta um dekk og skrúfa í YZ85 hjólið hans Ólivers.  Hér á myndinni má sjá Björk á hjólinu hans Kela sem hún sníkti af þeim feðgum og voru feðgarnir heppnir að fá það aftur.  Hér er slóð á myndirnar sem ég tók í dag, en þær voru nokkrar: http://sveppagreifinn.blog.is/album/Leirutjorn/

Gleðileg jól!

Óskum öllu hjólafólki og vinum gleðilegrar jóla og farsældar á nýju ári.  Erum spennt fyrir árinu 2008 og teljum að það verði jafnvel ennþá betra hjólaár en 2007.


Nýi DVD diskurinn fyrir mótaröðina 2006 og 2007

Verð eiginlega aðeins að tjá mig um þennan disk.  Gott og flott framtak og liggur sjálfsagt gífurleg vinna hér á bakvið.  Verð samt að segja að mér finnst það hálf dapurlegt hvað lítið var sýnt af yngri flokkunum, sérstaklega í ljósi þess að þetta er greinilega ekki á leið í sjónvarpið eins og ráð var gert fyrir og að menn hafa greinilega verið að klippa þetta til í þeim tilgangi að selja í verslun.  Af tæplega 200 keppendum sem skráðu sig til leiks í einhverja keppnina síðasta liðið sumar, að þá voru það ekki nema 41 í MX1 og 16 í MX2.  Ef maður fer yfir nafnalistann að þá voru þeir ennþá færri.  Það vill stundum gleymast að stærri hluti þess sem eru áhorfendur og hugsanlega kaupendur af disknum, eru aðstandendur yngri keppenda en ekki þeirra eldri.  Menn mættu hafa það í huga fyrir næsta ár, ef af slíkri vinnu verður.  Spurning hvort að menn hefðu frekar átt að sleppa árinu 2006 og setja yngri flokkana á annan diskinn og meistaraflokkinn á seinni diskinn?  Vera svo með 2006 á sér disk. 

Það skiptir nefnilega ekki síður máli að hlúa að ungviðinu eins og klappa gömlu kempunum á bakið.  Því aukin sýning á yngri iðkendum kveikir hugsanlega frekar í vinum þeirra og öðrum af sama aldri, heldur en að sýna eingöngu stóru og flottu strákana.  Vinir og kunningjar þeirra þekkja ekki Einar, Ragga, Aron, Valda, Kára, Gylfa svo einhverjir eru upptaldir.  Heldur þekkja þeir sína vini.  Ég t.d. ætlaði að kaupa 4-5 diska og senda út til ættingja og vina.  Því miður verður ekki af því, þar sem nánast ekkert er birt af þeim sem þau þekkja.  Þetta er flott "wrap up" fyrir mig, endi þekki ég orðið til.

Annars finnst mér efnið af MX1 og MX2 flott og vel klippt.  Ég geri mér grein fyrir að af nógu er að taka og er ég hér með alls ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem hér liggur að baki.  Þetta á frekar að vera ábending til þeirra sem eru að framkvæma þessa vinnu þar sem ég tel tvímælalaust liggja meiri sölutækifæri fyrir þá að sýna meira af yngra liðinu.  Þar með ertu ekki eingöngu að miða diskinn að þeim þrönga hópi sem er "hardcore" að keppa eða hjóla, heldur líka vini og ættingja.  


Afskiptaleysi fjölmiðla

Það kemur mér alltaf meir á óvart hversu lítið fjölmiðlar eru tilbúnir að fjalla um þetta sport almennt.  Er ég þá ekki að tala um einstaka greinar um iðkendur, heldur mót og úrslit þeirra.  Að engin umfjöllun hafi átt sér stað um t.d. Kirkjubæjarklaustur verður án efa að teljast eitt af hneykslum ársins er varðar umfjöllun um stórviðburði í íslensku íþróttalífi.  Það telst markverðara að kona á Húsavík sé búin að safna hátt í 600 jólasveinum eða tveir krakkar hafi farið í jólaljósasamkeppni á húsum í einni götu í Garðabæ.  Ekkert á móti þessu fólki og gott að það hafi fengið umfjöllun.  Nei, það þykir ekki merkilegt að rúmlega 500 manns hafi komið saman til að hjóla úr sér vitið og hátt í 2000 áhorfendur hafi verið á svæðinu.  En ef fylleríssamkoma á sér stað úti í bæ, að þá eru fjölmiðlarnir fljótir til. 

 Ég vil þó taka fram að ég tek hattinn að ofan fyrir Bílar & sport sem hefur heldur betur bætt í alla umfjöllun um sportið, en þegar ég er að tala um fjölmiðla að þá er ég fyrst og fremst að tala um þessa stóru sem fjalla um íþróttaatburði daglega.  Hvað veldur þessari dauðaþögn er mér hulin ráðgáta, en það er ljóst að við eigum ekki sama aðgang að fjölmiðlum og aðrar íþróttagreinar.  Er mikið verk fyrir höndum hjá þeim sem stunda þetta sport að koma þessari íþrótt betur á kortið hvað fjölmiðla snertir.  Ég neita að trúa því að umfjöllun stafi að stærstum hluta af eintómum klíkuskap, en að sjálfsögðu hlýtur umfjöllun oft að taka mið af áhugasviði hvers og eins íþróttafréttaritari og þar eigum við engan kandídat... 


Pása!

Fjölskyldan hefur ákveðið að taka sér tímabundna pásu.  Þó er aldrei að vita nema að hún stelist til að hjóla eitthvað, en eins og staðan er núna að þá er það bara frí sem er framundan.  Vonum við að fólk nýti tímann vel með fjölskyldum sínum yfir hátíðarnar og njóti þess að vera til.  Óskum við öllum gleðilegrar hátíðar!  Smile    

Rafmagnstrengur komin í Bolöldu

Mér skilst að Bolalda sé komin í samband við umheiminn og óska ég VÍK til hamingju með það.  Er það mikið framfara skref fyrir félagið og eiga þeir aðilar sem stóðu að þeim gjörning miklar þakkir fyrir.  Þetta þýðir að hægt verður að keyra hita og setja ýmis tæki og tól í samband eins og t.d. vefmyndavélar o.fl.  Einnig mun þetta breyta allri aðstöðu varðandi keppnishald þar sem nú verður hægt að vera með allt í sambandi sem þarf án þess að þurfa að hafa áhyggjur af útslætti eða straumflökti.  Nú þegar rafmagnið er komið, að þá þurfum við bara að skjóta saman smá aurum og þá erum við komin með flóðlýsingu á brautina...:o) 

Svo höldum við áfram þessu betli og áður en við vitum verður brautin í upphituð...:o)


Keppnisfyrirkomulagið í Texas

Sá sem sigraði Pro keppni karlaÞað var eitt sem vakti athygli okkar á WMA Drill Tech Cup '07 og það var úrval keppnisflokka sem keppendur gátu skráð sig í.  Þetta fyrirkomulag sem þeir hafa úti gerir það að verkum að einn og sami keppandi getur keppt í hinum ýmsu flokkum og þar með hámarkað keppnina ef þannig má að orði komast.  Keppnin varð fyrir vikið fyrir keppandann mjög opin og skemmtileg, og átti það sama við fyrir áhorfendur þar sem það var alltaf eitthvað að gerast.  Flokkaskiptingin var þannig að þú gast skráð þig eftir aldri, styrkleika og hjólastærð.  Sumir flokkar voru opnir og þá gátu allir tekið þátt.  Aðrir voru mjög niður njörvaðir og komust eingöngu í þá flokka sem nákvæmlega uppfylltu þau skilyrði.  Gott dæmi um þetta var að ef þú skráðir þig í WMA 100cc & up D (beginner) að þá gastu með engu móti skráð þig í næsta styrkleikaflokk fyrir ofan sem var VMA 100cc & up C (novice) og svo öfugt.  Eftir að þú ferð upp um styrkleikaflokka, að þá áttu engan möguleika á að fara til baka.  En aftur á móti gat manneskja sem búin var að skrá sig í WMA 100cc & up D (beginner) skráð sig í WMA 80cc Open, WMA JR VET 25+, WMA VET 40 o.fl.  Það sem meira var að stelpurnar gátu skráð sig í alla karlaflokka sem voru að keppa samhliða og gerði það að verkum að þær fengu mjög mikið út úr þessari keppni.

Því miður áttuðum við okkur ekki á þessu nógu snemma, en við erum reynslunni ríkari fyrir næstu ferð og munum taka fullt tillit til þess við skráningu.  En að sjálfsögðu stefnum við að fara að ári og þá munum við gera betur ráð fyrir að kuldaboli geti komið í heimsókn eins og hann gerði síðustu dagana.  Þessi keppni verður alltaf stærri og stærri í sniðum og tel ég það forréttindi að geta verið þátttakandi í svona móti. 


CycleRanch MXpark

Jæja, þá verður maður að halda áfram með loforða listann um að skrifa um þessa keppni.  Hér ætla ég lítillega að fjalla um brautina sjálfa og þær aðstæður sem eru þarna úti.  Þið eruð sjálfsagt flest búin að lesa um úrslitin á motocross.is.     

Brautin sjálf er ekki beint á fjölfarnast stað í Bandaríkjunum en er þeim mun skemmtilegri.  En hún stendur við Floresville í Texas, sem er rétt fyrir utan San Antonio, og tekur um 40 mínútur að keyra beint frá flugvellinum í San Antonio á brautina.  Fyrir þá sem hafa áhuga að þá mæli ég með að stilla GPS tæki beint á Floresville og leita svo að stóru skilti á vinstri hönd um það bil 5-10 mínútur eftir að komið er inn í bæinn.  Þar er þetta merkt stórum stöfum.   Jarðvegurinn í brautinni er blanda leirs og moldar og telst mjög fíngerður á okkar mælikvarða.  Samt verður hann ekki eins lauskenndur og moldin hér heima og er mun minna um svifryk á svæðinu heldur en t.d. í Álfsnesi á góðum þurrum degi.  Mitt mat á honum er að hann er truflaður og gripið geðveikt.  Það er nokkrir góðir pallar í brautinni og gefur loftmynd ekki rétta afstöðu til þeirra hvað varðar hæð og lengd.  Brautin liðast upp og niður í brekkum og er beygjurnar lagðar á milli trjáa sem gefa henni skemmtilegan svip, en jafnframt gerir það að verkum að útsýni takmarkast mikið á þegar um 1/3 er búin af henni og lagast aftur þegar 2/3 eru eftir.  Brautin er í lengra lagi en við eigum að venjast hér heima og tekur hringurinn fyrir pro ökumann rúmar 2 mínútur.  Það eru 40 steypt hlið á brautinni og eru þau vökvastýrð, að mig minnir.  Á svæðinu er ágætis aðstæða og má þar nefna tjaldstæði, þvottastöð, motocross verslun, salerni og sturtur ásamt sjoppu með grilli.  Ef það er eitthvað sem má setja út á þarna að þá mættu þeir vera duglegri að þrífa salernis og sturtu aðstöðuna, en það getur að sjálfsögðu verið erfitt í sambærilegum aðstæðum og sköpuðust þarna á svæðinu með slíkum fjölda keppenda.  Hægt er að leigja brautina og loka henni fyrir almenningi og mig minnir að það kosti litla $1.000 USD.

Ég og BillFyrir þá sem eru heitir að þá mæli ég með að þið hafið samband við Bill hjá MotorShak, sem er verslunin á staðnum.  Þetta er hinn besti karl og getur orðið ykkar innan handar með eitt og annað.  Netfangið hjá Bill er: motoshak@tgti.net.  Svona fyrir þá sem vita ekki hvernig þessi karl lítur út að þá er hér mynd af mér og honum í einhverju smæstu en jafnframt úttroðnustu motocross verslun sem ég hef komið í á ævinni.  Ótrúlegt úrval í jafn litlu rými. 


Myndirnar frá Texas komnar á síðuna

Er búin að henda litlu broti af öllum þeim myndum sem ég tók í þessari ferð.  Geri ekki ráð fyrir að þær verði fleiri sem fara á netið.  Bein slóð fyrir þá sem hafa áhuga er: http://www.sveppagreifinn.blog.is/album/Texas/.  Ég mun svo reyna að krota meira um keppnina sjálfa, aðstæður á svæðinu o.fl. þegar líður á vikuna.  Until then, adios. 

2 strokes hjól áberandi í US

Ræsing í 85cc flokk drengja, fyrsta beygjaVarð að setja nokkrar línur á blað yfir það sem mér þótti áberandi í keppninni í Texas og það er að kaninn virðist pressa grimmt á það að yngri krakkarnir keyri 2 strokes hjól en ekki 4 strokes.  Þegar ég var að horfa á keppni í 85cc flokki að þá sást varla Honda CRF150 hjól á ráslínu, heldur voru þetta nánast allt 2 strokes hjól.  Þetta þýddi ekki að það hafi verið lítið af Hondu hjólum, alls ekki, heldur einfaldlega það að kaninn virðist halda þessum hjólum að sínum yngri iðkendum vísvitandi.  Þegar ég spurðist fyrir um þetta að þá var svarið mjög einfalt.  Þau læra mun meira á því að keyra slík hjól frekar en 4 strokes, sem gerir þau að betri ökumönnum, þau eru léttari og það sem skiptir líka máli er að þau eru ódýrari í rekstri.  Enda var hreint út sagt ótrúlegt að sjá toppökumenn í þessum flokki keyra þessi hjól, flæðið í brautinni flott og hraðinn ótrúlegur.

Annað sem var einnig mjög áberandi á þessu móti er hvað KTM virðist vera með öflugt starf í yngstu aldurshópum ökumanna.  Var góður meirihluti KTM hjól á ráslínu í 65cc flokki og einnig voru þau mjög áberandi í PW flokknum.  Þessi var ótrúlegur, var númer 96 og ók í 65cc flokki drengjaÞetta á án efa eftir að skila æ fleiri ökumönnum á þessa tegund hjóla í framtíðinni og ég tel að markaðshlutdeild KTM í US eigi bara eftir að vaxa samhliða þessu öfluga markaðsstarfi þeirra.  Ég sá þarna einn ökumann á 65cc hjóli og verð ég að segja að ég hef nánast aldrei séð annað eins.  Drengurinn var um 9 ára gamall og hraðinn var slíkur að toppökumenn hér heima hefðu átt í fullt í fangi með þennan dreng.  Enda koma á daginn að hann fór leikandi með að stökkva vel rúmlega 30 metra stökk og þar sem margur fullorðin keppnismaður tók einfaldan, einfaldan að þar stökk hann tvöfaldan, tvöfaldan.  Þetta var eins og að horfa á snaróða býflugu á brautinni.  Ótrúlegt hvað kaninn er góður í loftinu og virðist ekki skipta neinu máli á hvaða aldri ökumaðurinn er, þeir virðast hreinlega vita hvað þeir eiga að gera eftir að þeir lyftast frá jörðu.  Enda kom kom nánast allur krakkaskarinn, frá PW og upp úr, með gjöfina í botni á pallanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sverrir Jónsson
Sverrir Jónsson
Ég heiti Sverrir Jónsson.  Helsta áhugamál mín eru motocross, veiðar, útivist o.fl.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 376190

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband