Föstudagur, 15. júní 2007
Bréf til fréttastofu Stöðvar 2 vegna umfjöllun um reglugerðabreytingu
Jæja, þá koma að því að maður yrði nú að senda línu út af einni fréttinni sem var að birtast hjá ykkur og snýr að þeim hópi fólks og foreldra sem stunda torfæruakstur. Aðalræðuefni dagsins, jú, forvarnarfulltrúar bölsóttast út í okkur vitleysingana fyrir að leyfa smábörnum og óþroska krökkum að aka slíkum hjólum. Einar forvarnarfulltrúi Íslands og meira segja umferðarstofa máttu vart halda vatni yfir þeim stór tíðindum að ráðherra, eins gáfaðir og þeir eru, skyldu leyfa þessu umræddu aldursmörk. Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum. Umferðarstofa setti að sjálfsögðu alla bifhjólaökumenn í einn hatt, eins og venja þeirra er. Forvarnarfulltrúi Íslands tilgreindi ökutæki sem náðu meira en 100 km. hraða á klst. og væri leyfilegt fyrir krakka allt niður í 6 ára. Þá tók nú steininn úr hjá mér. Hvaða vitiborna foreldri setti 6 ára barn á hjól sem næði meira en 100 km. hraða?
Við miðum okkur ansi mikið við hin löndin í kringum okkur og þá sérstaklega hin Norðurlöndin. Í hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu gilda sömu aldurstakmörk og verið var að samþykkja hér. Í Bretlandi eru keppnir fyrir krakka niður í 6 ára á motocrosshjólum. En hvaða máli skiptir það, þetta er allt saman tómir vitleysingar í kringum okkur. Nei, við erum svo afskaplega skynsöm hér í umferðinni að það hálfa væri nóg. T.d. kaupum við þessu flottu fjallahjól fyrir óþroskuðu börnin okkar, splæsum eitt stykki á hjálm á kollinn og kannski hjálpardekk ef barnið á erfitt með jafnvægi og svo eru þau tilbúin í umferðina á Íslandi. Já, þessu óþroskuðu grey fá það í gjöf frá okkur að við hlaupum með þeim nokkrar ferðir til að athuga hvort þau nái að standa út götuna og ef svo er, þá eru þau útskrifuð í umferðaskóla lífsins. Við fullorðna fólkið tökum aftur upp á því sem við gerum best og það er að láta þau afskiptalaus. Skítt með það þó að stór trukkur í nágrenninu þar sem verið er að byggja aki um nágrannagötur á allt að 80 km. hraða á klst. fulllestaður. Þetta er nú allur umferðarskóli lífsins sem þau fá áður en þau fara út í hina stóru umferð. Hvar eru olnbogahlífarnar, hnéhlífarnar, brjóstvörnin, hryggvörnin, nýrnabeltið, gleraugun o.fl. o.fl.? Þetta köllum við ekki hina íslensku rúllettu og þetta er allt í lagi þar sem þau eru á götum í næsta nágrenni og við getum því fylgst svo rosalega vel með þeim...
Til gamans má geta, fyrir þá sem vilja skoða hlutina í réttu samhengi, að meðalhraði fullvaxins keppnismanns í motocrossi er um það bil 40 km. hraði á klst. Vissulega geta stóru motocrosshjólin fyrir fullorðna náð allt að 100 km. hraða, en brautirnar eru byggðar með það í huga að þetta sé tæknisport en ekki hraðakstursíþrótt. Ef svo væri, að þá væri þetta bara bein lína og hraðinn í samræmi við það. Hver er þá eiginlega munurinn á því að setja krakka á reiðhjól og torfæruhjól? Jú hann er eftirfarandi og ekki endilega í þessari röð:
- Öryggisbúnaður. Iðkendur torfæruhjóla nota allan þann hlífðarbúnað sem til er, sbr. öryggishjálm, hálskraga, öryggisgleraugu, brynjur yfir axlir, brjóst og hrygg, olnbogahlífar, hnéhlífar, nýrnabelti, sérstaka öryggisskó
- Hjól yngstu iðkenda eru flest þannig úr garði gerð að foreldri getur stillt hraðan á þeim, þannig að þau nái ekki nema ákveðnum hármarkshraða miðað við getu, hefur þú séð þann búnað á reiðhjóli?
- Iðkendur eru alltaf í fylgd með fullorðnum, sem þýðir að þau eru ALLTAF að keyra UNDIR eftirliti forráðamanna.
- Brautirnar eru fjarri umferð annarra og stærri ökutækja eins og bifreiða
- Jarðvegurinn í brautinni er mýkri viðkomu heldur en malbikið og oft er um sand- og moldarbrautir um að ræða
- Fartækið er vélknúið og gengur fyrir eldsneyti
- Skemmtilegur félagsskapur og allir hjálpa öllum. Ekki veitir af í nútímaheimi
Eins og þið sjáið að þá er töluverður munur á t.d. reiðhjóli og torfæruhjóli. Ég hef tekið fram úr krökkum á reiðhjóli án nokkurs hlífðarbúnaður niður brekku á rúmlega 50 km. hraða á klst. Ekkert er hættulaust, en það þýðir samt ekki að við hættum að lifa. Ég hef lent í nokkrum bifreiðarslysum og þar á meðal hryggbrotnað, það þýðir samt ekki að ég sé hættur að nota bíl. Ég hef ökklabrotnað í fótbolta, það þýðir ekki að ég banna syni mínum að spila fótbolta og ég geri það ennþá sjálfur. Ég var keyrður niður á reiðhjóli 5 ára gamall og þá voru engir hjálmar (kannski þess vegna sem maður er svona klikk), það þýðir samt ekki að engin reiðhjól séu til á heimilinu mínu. Flest dauðsföll eiga sér stað í svefni, við hættum samt ekkert að sofa er það? Ég á bróðir sem slasaðist mjög illa á skellinöðru 15 ára gamall og lá fyrir dauðanum, á ég þá ekki að berjast gegn notkun skellinaðra þegar hann var í 100% rétti og var keyrður niður þar sem engin virðing var borin fyrir honum í umferðinni?
Ég og mín fjölskylda höfum stundað torfæruakstur í tæpt ár. Sonur minn er 8 ára og dóttir 14. Ég hef ekki eytt eins miklum tíma með fjölskyldunni frá því að hún varð til, en við förum nánast daglega að hjóla á VIÐURKENNDU svæði. Ekki á götum borgarinnar, eins og því miður sumir foreldar virðast leyfa sínum börnum að gera. Konan mín er fertug, ekki segja að ég hafi upplýst ykkur um það, og byrjaði að hjóla í janúar. Hún er að keppa í motocrossi í dag í opnum kvennaflokki.
Ef þið hefðuð áhuga á því að þá myndi ég gjarnan vilja bjóða ykkur að fylgjast með syni mínum og dóttir hjóla á morgun eða laugardag. Vonandi eyðir það þeim grillum að börnin okkar, þið vitið þessi óþroskuðu, geti ekki valdið einu né neinu og eiga helst að geyma í krukku upp á skáp þar til þau eru orðin fullorðin. En hvenær verða þau þá fullorðin? Já, það er miklu betra að láta þau hanga hálf hreyfingarlaus og nánast lífvana yfir MSN-inu og tölvuleikjum heldur en að hvetja þau til að takast á við lífið sjálft og áskoranir.
Ykkur er velkomið að hafa samband við mig út af þessu bréfi, en mér þætti afskaplega vænt um að þið sýnduð þessu nú aukin skilning ef þið hafið nennt að bögglast í gegnum þetta bréf. Ég tala hér sem einn einstaklingur sem á fjölskyldu þar sem allir eru að hjóla.
Virðingarfyllst, Sverrir Jónsson og hjólafjölskyldaBloggvinir
Tenglar
Motocross síður
Ýmsir tenglar yfir motocross og keppnir
- www.ridingiceland.is Hjólaleiga fyrir innlenda sem og erlenda ferðamenn sem hafa áhuga að á kynnast landinu á hjóli. Endilega að kíkja á síðuna hjá honum Hafsteini
- Heimasíða VÍK Aðalsíðan í bænum. Upplýsingar um keppni, ástand brauta o.fl.
- KKA Akstursíþróttafélag Heimasíða KKA á Akureyri, margt fróðlegt
- RacerXill.com Ágætis síða um motorcross, keppnri og fleira
- AMA Motocross Official heimasíða AMA motocross
- FMX - freestyle Góð síða með upplýsingum um freestyle motocross
- Motocross Action Magazine Vefur útgáfanda Motocross Action Magzine
- TransWorld Motocross Ýmis fróðleikur um motocross og keppnir í gangi
- Dirtbikerider Heimasíða útgefanda DirtBikeRider, margt fróðlegt um motocross og enduro
- Dirtbike Off-Road Upplýsingar um hjól, hjólatest o.fl.
- Supercross.cc Mjög góð síða með upplýsingar um Supercross, miða á netinu o.fl.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar